Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 18:26:40 (5006)


[18:26]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vandinn er sá, hæstv. ráðherra, að þrír af fjórum flutningsmönnum þessara tillagna túlka tillögurnar á allt annan veg en hæstv. utanrrh. gerir hér. Það liggur einnig fyrir að hæstv. landbrh. og hæstv. forsrh. túlka tillögurnar á sama veg og hv. þm. Egill Jónsson. Annað hefur a.m.k. ekki komið fram enn sem komið er. Þess vegna hljóta dómendur í sinni túlkun að fara eftir fagráðherranum og forsrh. og meiri hluta þeirra sem flytja tillögurnar frekar en að fara eftir einum þingmanni Alþfl. og einum ráðherra úr ríkisstjórninni sem er ekki með málið á sínu faglega umráðasviði. Þess vegna spyr ég ráðherrann enn á ný þar sem hann hlýtur að viðurkenna það að orð forsrh. og landbrh. og formanns nefndarinnar vega þungt í lagaskýringunni: Hvernig hyggst hann ganga frá málinu hér í þinginu áður en umfjölluninni er lokið?