Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 18:29:40 (5008)


[18:29]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mikið deilt um það hér hvort réttaróvissan sé enn þá fyrir hendi. Hæstv. utanrrh. hefur ýmist sagt að það hafi dregið úr réttaróvissunni eða að það hafi tekist að miklu leyti að eyða henni.
    Á fyrsta fundi hv. landbn. þegar skoðuð voru drög að því frv. sem lagt var fram í febrúar komu tveir lögmenn sem fóru yfir hæstaréttardóminn með hliðsjón af lagabreytingunni frá því í desember. Þeir voru ósammála um niðurstöðu dómsins en sammála um það að þetta frv., sem þá var verið að skoða drög að, mundi ekki eyða réttaróvissunni. Nú hefur hæstv. ráðherra fullyrt það að þetta frv., sem við erum nú að ræða með brtt., sé nánast orðið eins og það frv. sem lagt var fram í febrúar sem þýðir það að enn er uppi sama réttaróvissan og var. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra enn og aftur: Hvernig ætlar hann að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi ef tortryggnin er svo mikil á milli stjórnarflokkanna að þeir valda ekki því verkefni sem þurfti að vinna hér?