Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 18:31:20 (5009)


[18:31]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Um hvað gæti réttaróvissa staðið? Vörusviðið? Nei. Þar kom fram ein gagnleg ábending, sem skipti að vísu engum sköpum, hjá títtnefndum lögfræðingum, nefnilega að gefa viðaukanum lagagildi, áður hafði hann verið settur fram sem fylgiskjal. Verðjöfnunargjöldin, gætu þau valdið réttaróvissu? Ef hér hefði verið lagt fram það frv. sem lögfræðingarnir stóðu að fyrir landbn. þá hefði það valdið mikilli réttaróvissu því að þeir skildu ekki hvað verðjöfnunargjöld voru. Eftir að búið er að leiðrétta þann texta þá er alveg ljóst að það er unnt að framkvæma álagningu verðjöfnunargjalda þannig að þau séu innan skilgreindra marka milliríkjasamninga og þá hefur þeirri réttaróvissu verið eytt og þakkað sé ekki þessum hv. lögfræðingum. (Gripið fram í.) Þakkað sé ekki, vegna þess að þeirra upphaflegi texti að því er það varðaði skýrði ekki, hann var villandi, hann var rangur og hefði ekki verið framkvæmanlegur. ( ÓRG: Forsrh. lýsti því yfir að hann hefði verið mjög ánægður með þann texta.) Ég hygg að í þessum björgunarleiðangri hafi tekist að bjarga fyrir horn þannig að það verði ekki mikil réttaróvissa af framkvæmd þessara laga. Standist það þá held ég líka að það sé ekkert því til fyrirstöðu að menn haldi áfram stjórnarsamstarfi um önnur og þýðingarmeiri mál.