Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 18:33:37 (5011)


[18:33]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Jú, sem betur fer vita bændur nú betur hvar þeir standa. Þeir vita það að tilteknar landbúnaðarvörur birtar í viðaukum með lögum eru bannaðar í innflutningi. Þeir vita ef undanþága er gerð eða ef vara er flutt inn samkvæmt milliríkjasamningum þá eru lögð á verðjöfnunargjöld sem eru þekkt stærð og rétt skilgreind. Í þessum skilningi hefur réttaróvissu verið eytt. Ég vil hins vegar taka undir það með hv. þm. að það væri æskilegt að menn legðu síðan þessar deilur að baki eða hættu þeim leik að skemmta skrattanum með því að búa til deilur (Gripið fram í.) og færu að snúa sér að aðalatriði málsins sem er þetta: Að undirbúa bæði bændur og framleiðendur í matvælaiðnaði á Íslandi undir samkeppni sem kemur smám saman á næstu sex árum og það yrði helst gert með því að koma með heildstæðar og skynsamlegar tillögur um það með hvaða hætti megi létta af fjötrum kvótakerfisins á íslenskum bændum.