Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 18:34:56 (5012)


[18:34]
     Frsm. 4. minni hluta landbn. (Eggert Haukdal) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er merkileg lokaniðurstaða sem nú blasir við, en umræðunni er víst senn að ljúka í kvöld. Hæstv. utanrrh. stendur hér berstrípaður eftir ræðu og spurningar hv. þm. Ólafs Ragnars. Sú er staðreynd málsins sem hér liggur fyrir eftir hans miklu ræðu í kvöld. Það er svo alveg merkilegt sem hér blasir við að hv. sjálfstæðismenn allt of margir sitja hér og taka ekki til máls eftir þessa löngu ræðu hæstv. utanrrh. áðan þar sem hann tónaði aldeilis til samstarfsflokksins. Það er geðleysi að sitja undir þessu.
    Hæstv. ráðherra svarar mér aldrei málefnalega. Hann víkur alltaf að landráðum, það sé það eina sem ég hafi að segja. Ég hef sagt um störf hæstv. ráðherra, m.a. í garðyrkjunni sem hann var að segja að væri á grænni grein, hann er nánast búinn að ganga frá henni. Hæstv. ráðherra man ekki hvað íslenskt er. Það er vandamálið. Forráðamenn annarra þjóða berjast með kjafti og klóm fyrir sínu landi, fyrir sinni þjóð. Það er óskaplegt til þess að vita að hér gleymir utanrrh. því, að því er virðist, að hann er Íslendingur.