Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 19:02:31 (5017)


[19:02]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Út af hinu síðasta sem hv. þm. sagði þá minnist ég þess ekki að hann hafi fyrir síðustu kosningar lýst því yfir að hann yrði á móti samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, þvert á móti barðist formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, mjög fyrir því að þeir samningar tækjust.
    Ég vil líka segja, hv. þm., að það er ekki hægt að kenna utanrrh. um það að í síðustu ríkisstjórn átti landbúnaðurinn ekki fulltrúa í samninganefndum því sú ákvörðun var tekin í janúarmánuði 1991, frekar en í febrúarmánuði, að Íslendingar mættu ekki þar sem landbúnaðurinn var til umræðu og það var gert í þeim tilgangi að reyna að þrýsta á samninga um sjávarútvegsmálin. Það var því tekin ákvörðun um það af síðustu ríkisstjórn, ekki af hæstv. utanrrh. einum, eins og ég skil það, heldur ríkisstjórninni sjálfri að það skyldi ekki mætt í þeirri nefnd. Það var tilkynnt erlendis eins og hv. þm. á að vera kunnugt.