Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 19:06:53 (5020)


[19:06]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í nokkrar vikur fylgdist þjóðin með hörðum deilum ríkisstjórnarflokkanna um það mál sem hér er til umræðu. Þjóðinni var síðan sagt á mánudagskvöldið í síðustu viku að samkomulag hefði náðst. Ræður hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. í kvöld sýna það að sá grundvallarágreiningur sem þjóðin fylgist með vikum saman er enn þá í fullu gildi innan ríkisstjórnarinnar. Það er alveg ljóst. Hér hafa tveir ráðherrar talað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og þeir eru í grundvallaratriðum ósammála í þessu máli.
    Ég ætla þess vegna að beina þeirri spurningu til þessara tveggja hæstv. ráðherra og þeir þurfa ekki að svara því fyrr en eftir helgi þegar umræðan heldur áfram: Ætla þeir virkilega að standa að afgreiðslu málsins á þinginu með þessum hætti? Það er Alþingi ekki samboðið.