Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 19:08:23 (5021)


[19:08]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það komi fram eins og við höfum báðir sagt, ég og hæstv. utanrrh., að við erum að tala um hvernig staðið skuli að málum þangað til og ef Alþingi ákveður að samþykkja GATT-samningana. Við erum þess vegna að tala um tímabundið ástand. Við getum ekki á þessari stundu sagt hversu langt það verður en hitt er ljóst að samkvæmt GATT-samningum þá getum við notað jöfnunargjöld ef okkur býður svo við að horfa.
    Hitt veit hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fullvel eins og ég að innan ríkisstjórna er oft blæbrigðamunur um ýmis mál. Menn eru ekki alltaf sammála því hvernig eigi að taka á einstökum málum. Svo var í þeirri ríkisstjórn sem hann sat í nú síðast að í ýmsum tilvikum var hann ekki sammála Alþfl. og heldur ekki Framsfl. Skýrasta dæmið um slík efni er auðvitað, hvað á ég að segja, hin tvöfalda afstaða Alþb. fyrr og síðar til varnarliðsins og NATO.