Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 19:09:31 (5022)


[19:09]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. er illa á sig kominn í þessu máli þegar hann fer að tala um NATO. NATO kemur þessu máli ekkert við, hæstv. landbrh. En skildi ég hæstv. landbrh. rétt að hann væri með þessu andsvari nú að afneita öllum þeim skilningi sem fram kemur í nál. hv. þm. Egils Jónssonar? Það var í raun og veru ekki hægt að skilja hæstv. landbrh. á annan veg. --- Hv. þm. Egill Jónsson hristir hér höfuðið.
    Þessar uppákomur hér, ræður ráðherranna tveggja, andvar landbrh. nú og viðbrögð hv. þm. Egils Jónssonar úti í sal þegar hann hristir höfuðið, eru dæmi um það að þetta mál er í nákvæmlega jafnmiklu uppnámi í dag og það var fyrir hálfum mánuði síðan. Ég endurtek: Það er Alþingi Íslendinga ekki samboðið að ætla sér að eyða réttaróvissu, svo notuð séu orð þessara ráðherra, með þeim hætti sem hér hefur komið fram í dag. Ráðherrarnir eru ekki sammála og hv. þm. Egill Jónsson er ekki sammála síðasta andsvari hæstv. landbrh.