Afgreiðsla hafnalaga

107. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:13:24 (5033)


[15:13]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að fá það mjög skýrt af forsetastóli að atkvæðagreiðslu er frestað þegar þingflokkur óskar eftir því. ( Gripið fram í: Einn þingflokkur.) Einn þingflokkur. Það er mjög skýrt og ánægjulegt að hafa það fordæmi skýrt þannig að nú þarf ekki að deila um það framvegis að setji einn þingflokkur fram ósk um frestun atkvæðagreiðslu þá verður forseti við henni. Ég ætla ekki að gera neina athugasemd við þá ákvörðun.
    Ég vil hins vegar vegna ræðu hv. þm. Geirs Haarde ítreka það að ég hef óskað eftir því ítrekað að forseti nefni fordæmi fyrir því að ósk þriggja þingflokka um frestun 1. umr. máls sé neitað. Forseti hefur enn sem komið er ekki treyst sér til þess að nefna slíkt fordæmi. Ég ítreka þess vegna ósk mína um að það fordæmi sé nefnt því alveg á sama hátt og ég tel nauðsynlegt að hafa það skýrt að óski þingflokkur eftir frestun á atkvæðagreiðslu

sé orðið við þeirri ósk, þá er auðvitað líka nauðsynlegt að hafa það skýrt að óski þingflokkur eftir frestun á 1. umr., ég tala ekki um ef þrír þingflokkar óska eftir frestun á 1. umr. þá sé orði við þeirri ósk. Það var hins vegar ekki gert, hv. þm., og það er í því sem mismununin liggur. Og þar til hægt er að nefna mér fordæmi um það að forseti neiti ósk frá þremur þingflokkum um frestun 1. umr. held ég mér við það að ákvarðanir forsetadæmisins á undanförnum vikum feli í sér mismunun. Ég vona satt að segja að sú ákvörðun forseta á sínum tíma að fresta umræðunni ekki þrátt fyrir ósk þriggja þingflokka verði ekki fordæmi í störfum þingsins. Ég tel það betra ef forseti getur tekið af skarið um það líkt og forseti gerði nú varðandi atkvæðagreiðslu að óski þingflokkur, ég tala nú ekki um fleiri en einn þingflokkur, eftir frestun á 1. umr. þá verði líka orðið við þeirri ósk því það er mjög nauðsynlegt að leikreglur í þingsalnum séu skýrar.