Afgreiðsla hafnalaga

107. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:15:57 (5034)


[15:16]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Það væri fróðlegt að spyrja hv. þm. og formann þingflokks Sjálfstfl. hvort þessi frestun atkvæðagreiðslu, sem ég skil svo að eigi ekki að fara fram í dag, einhvern tímann í vikunni trúlega, þýði það að Sjálfstfl. sé að vinna að breytingum á þessu frv. en við í minni hluta samgn. höfum margsinnis lagt til að menn reyndu að koma meira viti í þetta mál. Ef svo er, sem ég vil trúa að hv. þm. Geir Haarde sé að gera, að hann hafi lagt þetta mál fyrir þingflokk Sjálfstfl. og þau varnaðarorð sem við höfum haft uppi við þá heiftarlegu mismunun sem þetta frv. leiðir yfir landsbyggðina með skattlagningu, margfaldri skattlagningu á byggðirnar og einnig það óljósa orðalag sem í þessu frv. felst um það að hafnir megi gerast hluthafar í fyrirtækjum með skylda starfsemi án þess að þingið hafi fengið svör við því hvað hér er verið að tala um. Ítrekað hef ég borið þessar óskir fram í þingnefnd og ítrekað hef ég óskað eftir því við hæstv. ráðherra að hann gerði okkur grein fyrir því hvað hér væri verið að tala um áður en gengið yrði til atkvæða. Því fagna ég því, hv. þm. og formaður þingflokks Sjálfstfl., Geir Haarde, að þingmaðurinn skuli hafa tekið málið upp að nýju í þingflokki Sjálfstfl. til þess að bæta það og að sjálfsögðu munum við þingmenn Framsfl. fagna því og mæla með því að málinu verði frestað.