Afgreiðsla hafnalaga

107. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:19:24 (5036)


[15:19]
     Fjármálaráðhera (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Hér er um að ræða frv. sem á að greiða atkvæði um, umræðum er lokið. Það er næst á dagskrá að hafa atkvæðagreiðslu. Ég vil láta það koma fram frá mínum sjónarhóli að ég tel að það sé á engan veg verið að skapa það fordæmi að hvaða formaður í þingflokki sem er eigi kröfu á því að atkvæðagreiðslu sé frestað þegar hann biður um. Þvert á móti er það svo að forseta ber að ákveða þetta sjálfur á grundvelli þess sem hann telur rétt og skiptir engu máli hvaðan beiðnin um frestunina kemur. Þetta segi ég vegna þess að forseta ber í sínum úrskurði eins og allir vita . . .   (Gripið fram í.) Ég er að ræða hér um stjórn forseta og ég bið hv. alþýðubandalagsmenn að vera ekki viðkvæmir fyrir því þó þeim sé sagt til af og til jafnvel. Þótt ég viðurkenni það að í þeirra hópi séu gamlir aflóga kennarar úr háskólanum sem kunna sitthvað fyrir sér, þá er það svo að sá sem hér stendur hefur lært í þeim skóla líka, þar á meðal lögfræði sem fjallar um mál eins og það sem er til umræðu. Og ég vil halda áfram og segja að það er sjálfstæð ákvörðun forseta á hverjum tíma, skiptir ekki máli hvaðan beiðnin kemur eða hvort engin beiðni kemur fram, einfaldlega vegna þess að forseti hlýtur að meta hvað sé eðlilegast fyrir niðurstöðuna og við vitum að hér gildir þingræði. Það er meiri hluti sem ræður hér, það á að taka tillit til þess og það á að taka tillit til minni hlutans líka.
    Ég mótmæli því, virðulegi forseti, mjög ákveðið að að lagt sé út af þessum umræðum með þeim hætti sem hv. 8. þm. Reykn. gerði, að hér skapaðist fordæmi fyrir að formaður þingflokks, hvaða þingflokks sem væri, gæti beðið um frest og þá yrði að verða við þeim óskum. Það er misskilningur að sjálfsögðu. ( ÓRG: Þú ert bara einn um þessa skoðun).