Afgreiðsla hafnalaga

107. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:27:21 (5041)


[15:27]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá formanni þingflokks Sjálfstfl. Ég lenti í erfiðleikum með það að komast til þings á sínum tíma og þá var atkvæðagreiðslu frestað og ég þakka fyrir það. En ég vil endurtaka þá ósk mína til formanns þingflokksins að hann noti þennan tíma sem núna gefst, sem ég skil að hann sé að vinna að, til að reyna að koma meira viti í þetta mál sem átti að fara til atkvæðagreiðslu. Ég trúi því að það sé það sem vaki fyrir mönnum að reyna að koma í veg fyrir það m.a., sem í frv. stendur, að 25% álag á vörugjaldið sem leggst einu sinni á íbúa Reykjavíkur en getur lagst 3--4 sinnum á íbúa á Vestfjörðum og allt að 5 sinnum á íbúa í Norðurlandskjördæmi eystra. ( Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þetta er rétt. Ég trúi því að það sé þetta sem formaður þingflokks Sjálfstfl. sé m.a. að reyna að leiðrétta í flokknum. Dreifbýlisþingmenn hafi kallað á málið aftur til meðferðar í þingflokknum og auðvitað erum við fúsir til að gefa þann frest. Allt sem ég hef hér sagt er rétt, hv. þm. Sturla Böðvarsson, sem samdi þetta frv. og á er búið að gera 30--40 breytingartillögur en enn þá er greinilega þörf á að laga það.