Forvarnir gegn bjórdrykkju

108. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:30:26 (5043)


[15:30]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Áður en ég ber fram fsp. mína til hæstv. heilbr.- og trmrh. vil ég

aðeins gera athugasemd varðandi heiti fsp., Forvarnir gegn bjórdrykkju. Hér er að sjálfsögðu átt við forvarnir gegn áfengisdrykkju almennt, en í tilefni þess að bjór var lögleiddur hér á landi þann 1. mars 1989. Fsp. er að finna á þskj. 635 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    1. Hvernig hefur verið staðið að átaki í forvörnum sem boðað var í kjölfar lögleiðingar bjórs á Íslandi þann 1. mars 1989?
    2. Hve miklu fé var varið til slíks átaks árin 1989--1993?
    3. Hverjir sáu um framkvæmd þessa átaks?
    4. Hefur verið lagt mat á árangurinn og ef svo er, hver er hann þá talinn vera?
    Svo hljóðar fsp. Það ætti öllum að vera ljóst hvers vegna þessi fsp. er borin fram. Það var margítrekað í umræðu sem átti sér stað á vordögum árið 1988 og reyndar árið áður líka að yrði bjór lögleiddur hér á landi, þá ætti og væri nauðsynlegt að fylgja því eftir með góðu forvarnastarfi. Margir vildu ganga frá tryggilega slíku og með skipulegum hætti, en það varð ofan á að almenn fyrirheit voru gefin. Ég vil m.a. vísa til ummæla hæstv. þáv. heilbr.- og trmrh. þann 23. mars í lok 2. umr. um þetta frv. í neðri deild og afgreiðslu þar. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hlutverk heilbrigðisyfirvalda er að halda uppi öflugri fræðslu og forvarnastarfi um hvers konar heilsusamlegt líferni sem dregið getur úr sjúkdómum og slysum. Það eiga yfirvöld m.a. gera með því að efla ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu með markvissu upplýsinga- og fræðslustarfi. Ég tel markvisst forvarnastarf ekki felast í því að banna einstakar neysluvörur sem þó kunna að vera minna skaðlegar en aðrar sem neysla er leyfð á. Í slíkri afstöðu finnst mér felast tvískinnungur. Ég mun leggja þunga áherslu á aukið fræðslu- og upplýsingastarf um hættuleg og skaðleg áhrif áfengis og tóbaks á heilsufar fólks og styðjast í því sambandi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og íslenskrar heilbrigðisáætlunar.``
    Hæstv. núv. heilbrrh. er hér með beðinn um að upplýsa það hvort þessum fyrirheitum hafi verið framfylgt og þá á hvern hátt. Það er ljóst, og hefur komið fram m.a. hjá fræðslumiðstöð í fíknivörnum, að áfengisneysla meðal íslenskra barna og ungmenna fer vaxandi og munstrið er að breytast nokkuð. Um þetta eru til allmiklar tölur sem ég hef ef til vill möguleika á að tíunda í seinni ræðutíma mínum í þessari fsp. En ég bið hæstv. heilbr.- og trmrh. að upplýsa það sem beðið er um í fsp.