Forvarnir gegn bjórdrykkju

108. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:39:02 (5045)


[15:39]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Það segir kannski mest um það hvað heildarmagntölur segja í raun litla sögu og hvað mat manna er misjafnt að í skýrslu félmrh. um velferð barna og ungmenna sem liggur fyrir þinginu á þskj. 567 segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nýleg rannsókn hefur sýnt að neysla áfengis er mikil hjá unglingum hér á landi. Margar rannsóknir hafa einnig sýnt að ofbeldi er nátengt áfengisnotkun. Til að ná tökum á ofbeldi unglinga telur nefndin að einfaldast væri að byrja á því að taka drykkjuvandamálið fastari tökum. Nefndin telur að áfengis- og vímuefnavarnir gagnvart unglingum hafi brostið og telur að það ætti að vera eitt af forgangsverkum opinberra aðila að hrinda af stað öflugu forvarnastarfi gegn neyslu áfengis og vímuefna.``
    Af því að ég gat um upplýsingar um mynstrið í áfengisneyslu barna og ungmenna, þá vil ég taka það fram að í upplýsingum frá fræðslumiðstöð í fíknivörnum kemur fram að áfengisneysla meðal íslenskra barna er almenn og fer vaxandi og nær til sífellt yngri barna samkvæmt könnunum. Þarna eru geigvænlegar tölur eins og þær að rúmlega 20% barna í 8. bekk grunnskóla neyta áfengis og tæplega 10% þar af mánaðarlega eða oftar. Tölurnar eru hærri eftir því sem ofar kemur í skólastigann og þegar að framhaldsskóla er komið, þá eru 84% framhaldsskólanema sem neyta áfengis og þar af 56% mánaðarlega og oftar. Þetta og ummælin í skýrslu hæstv. félmrh. tel ég að sýni að það þarf að gera betur. Lions Quest-verkefnið hefur sýnt að það er ýmislegt hægt að gera með góðri fræðslu en tölurnar sem hæstv. heilbr.- og trmrh. las fyrir okkur sýna að það hefur ekki verið veitt til þessa málaflokks það fjármagn sem ástæða væri til.