Jöfnun á símkostnaði

108. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:54:29 (5052)


[15:54]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er rangt hjá hv. fyrirspyrjanda að það hafi hallað á einhverja ógæfuhlið í sambandi við símkostnað á langlínum eða öðru slíku. Það er ekki rétt. Á hinn

bóginn er það rétt að síðan ég varð samgrh. hefur verið lögð meiri áhersla á að lækka símtöl til annarra landa sem er mjög brýnt mál eins og hv. þm. á að vera kunnugt og nauðsynlegt vegna þeirrar alþjóðlegu samkeppni sem komin er upp í sambandi við símtöl á milli landa.
    Vegna þessarar fsp. er þetta að segja. Sú breyting sem verður á símanúmerakerfi landsmanna á árinu 1995 er gerð til að einfalda númerakerfið og að opna möguleika á að hafa sérstök númer fyrir nýja þjónustu. T.d. er ekki unnt að taka upp neyðarnúmerið 112 fyrr en eftir breytinguna en öll Evrópulönd ætla að sameinast um það númer. Númerabreytingin hefur hins vegar ekkert með gjaldamál að gera og hafa engar ákvarðanir um breytingar á gjaldskrá verið teknar í tengslum við númerabreytinguna. Af tæknilegum ástæðum væri raunar óheppilegt að láta gjaldskrárbreytingu og númerabreytingu fara saman þar sem númerabreytingin er mjög viðamikil og því ástæðulaust að framkvæma aðrar breytingar sem tengjast henni samtímis.
    Ég vil að lokum segja að eins og nú standa sakir eru ekki uppi áætlanir um að jafna símkostnað á öllu landinu til fullnustu.