Hæstiréttur Íslands

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 14:46:02 (5069)

[14:46]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd allshn. fyrir nefndaráliti á þskj. 730, um frv. til laga um breytingu lögum um Hæstarétt Íslands.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn til viðræðna Markús Sigurbjörnsson prófessor, Hrafn Bragason, forseta Hæstaréttar, Valtý Sigurðsson, formann Dómarafélags Íslands, og Magnús Thoroddsen, formann laganefndar Lögmannafélags Íslands. Þess má geta sérstaklega að þetta mál var skoðað um leið og þau mál er voru á dagskrá fundarins hér áðan, þ.e. breytingarnar á lögum um Hæstarétt, meðferð einkamála og meðferð opinberra mála.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, réttarfarsnefnd, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Hæstarétti, Neytendasamtökunum, Stéttarsambandi bænda, Lögmannafélagi Íslands og Eiríki Tómassyni hæstaréttarlögamanni.
    Frv. er tvíþætt. Í því felst annars vegar að Alþingi staðfesti tillögur ráðherra um skipun dómara í Hæstarétt. Hins vegar er gert ráð fyrir að hæstaréttardómari geti ekki horfið tímabundið til annarra starfa í sex mánuði eða lengur eða stundað önnur dómarastörf.
    Í umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram að frv. kallar á ítarlega skoðun, þar á meðal á stjórnskipun landsins í heild, og kann efni þess að kalla á stjórnarskrárbreytingu. Réttarfarsnefnd hefur nú til sérstakrar skoðunar lagaákvæði varðandi dómara og skipulag dómstóla og er ætlunin að nefndin semji sérstakt frv. að dómstólalögum. Allshn. leggur áherslu á að í þeirri vinnu verði efnistriði þessa frv. tekið til sérstakrar athugunar. Með hliðsjón af fyrrgreindu telur nefndin að ekki sé tímabært að taka afstöðu til þessa frv. eins og sér, en í trausti þess að efnisatriði þess verði tekin til athugunar við endurskoðun dómstólareglna leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Ólafur Þ. Þórðarson var fjarverandi afgreiðslu málsins en undir nefndarálitið rita nöfn sín allir aðrir nefndarmenn í allshn.