Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 16:55:59 (5077)


[16:55]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Nú eru margar orsakir til þeirra erfiðleika sem eru landbúnaði og ég er ekkert að skorast undan ábyrgð á þeim mistökum sem gerð hafa verið og ég hef tekið þátt í. Ég hef að vísu ekki tekið þátt þeim öllum og er ekki ábyrgur fyrir þeim öllum. Það landbúnaðarkerfi sem við búum við á hluta af vandanum. En ekki batna nú horfurnar ef vinnan er tekin frá bændum með því að flytja inn. Út á það

gengur pólitík Alþfl. að flytja inn sem allra mest af búvörum til landsins. Út á það gekk hin langa, langa, langa ræða sem hv. 4. þm. Vesturl., Gísli S. Einarsson, flutti hér um daginn, frá upphafi til enda. Meining hans og barátta öll og þeirra utanríkisráðuneytismanna og allt það þrastarkvak gengur út á það að opna allar gáttir fyrir innflutningi landbúnaðarvara. Ef við flytjum landbúnaðarvörurnar inn, þá erum við jafnframt að taka vinnuna frá þeim sem hafa hingað til framleitt þessar vörur og auka á atvinnuleysi í landinu og gera bæði bændur og ekki bara bændur heldur afurðastöðvarnar gjaldþrota og taka vinnuna frá því fólki sem framleiðir, meðhöndlar vöruna og þjónustar landbúnaðinn.