Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 19:43:48 (5099)


[19:43]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Nú ætla ég ekki að deila við hv. þm. um það hvað hann sagði í sinni ræðu og ef til vill hef ég ekki haft það orðrétt eftir, en ég hygg samt að meiningin hafi verið sú sem ég sagði í mínu andsvari áðan að hv. þm. nefndi að framkvæmdarvaldið væri að taka málið yfir. Við skulum bara lesa það þegar málið kemur úr vinnslu ræðudeildar.
    Hitt var athyglisvert að heyra hv. þm. lýsa því yfir áðan að undanhaldið væri komið á það stig að hv. þm. væri búinn að sætta sig við það að álagning hluta þeirrar verndar sem við höfum vegna GATT verði ekki í höndum landbrh. eins og hv. þm. hafði haft heitstrengingar um fyrir einungis nokkrum vikum síðan.