Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 19:45:03 (5100)


[19:45]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Um fyrri hluta þessarar fyrirspurnar þarf ég ekki að orðlengja. Málið er að það eru fullar heimildir til þess að leggja á 30% tolla og til viðbótar stendur verðjöfnunargjaldaheimild landbrh. óhögguð þannig að hér er ekki um það að ræða að þetta haggi eitthvað við rétti eða skyldum landbrh. að þessu leyti. Ef til þess kæmi að það yrði gerð tollabreyting sem tæki neðsta hlutann af þessum álagningarheimildum, þá teldi ég að það hefði út af fyrir sig ýmsa aðra kosti för með sér. Ég held að það sé ekki neinn sérstakur kostur að verðjöfnunargjöld verði sérstaklega há ef þau bara þjóna þeim tilgangi sem til er ætlast og lögbundnar heimildir eru um, að verðjafna erlendar og íslenskar framleiðsluvörur. Það er auðvitað aðalatriðið.