Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 20:30:24 (5103)

[20:30]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Frv. til laga um breytingar á búvörulögum hefur verið til umfjöllunar í hv. landbn. og er hér til 2. umr. Það vekur vissulega athygli að nefndin skuli skila fjórum minnihlutaálitum en tveimur nál. fylgja brtt. Starf landbn. hefur orðið vandasamt, ekki síst það viðfangsefni að ná sáttum við fulltrúa Alþfl. sem virðast hafa fengið það verkefni hjá flokki sínum að hamla gegn löggjöf sem gæti auðveldað íslenskum landbúnaði og þeim sem eiga allt sitt undir þjónustu við landbúnaðinn að takast á við þær miklu breytingar sem hafa orðið og verða með búvörusamningnum og þeim milliríkjasamningum sem við hljótum að undirgangast.
    Eftir að hafa hlýtt á fulltrúa Alþfl. í hv. landbn. flytja nál. sitt, hv. 4. þm. Vesturl., er ljóst að Alþfl. vill halda áfram þeim skylmingum í landbúnaðarmálum sem flokkurinn hefur tíðkað síðustu mánuði.
    Með nál. fulltrúa Alþfl. er gerð tilraun til þess að halda réttaróvissunni áfram, gera brtt. tortryggilegar með því að halda því fram að nál. sé ekki í samræmi við frv. án þess að gera grein fyrir með fullnægjandi hætti í hverju það felist. Slík vinnubrögð gætu með góðum vilja flokkast undir pólitísk skemmdarverk en eru hins vegar svo augljós að ekki verður litið á nál. Alþfl. öðrum augum en þeim að það verður að teljast marklaus tilraun til þess að slá ryki í augu fólks og koma inn tortryggni hjá almenningi.
    En um hvað hefur verið deilt? Er það um forræðið, sem á að verða hjá landbrn., eða er það um þá framkvæmd að takmarka innflutning landbúnaðarvara og koma í veg fyrir óvissu?
    Eins og margoft hefur komið fram náðist samkomulag í desember innan ríkisstjórnarinnar um að landbrh. færi með það vandasama viðfangsefni að stýra innflutningi landbúnaðarafurða. Vegna deilu um innflutning sem sprottið hefur upp var nauðsynlegt að vanda mjög umfjöllun Alþingis og tryggja sem best þá meginframkvæmd sem frv. gerir ráð fyrir.
    Hv. landbn. undir forustu hv. 3. þm. Austurl. hefur vissulega staðið undir þeim miklu kröfum sem hafa verið gerðar til landbn. og tek ég það sérstaklega fram.
    Þær breytingar sem 1. minni hluti landbn. leggur fram á þskj. 672 eru rækilega skýrðar í nál. Í nál. segir m.a., sem er mjög mikilvægt og ég vil vekja sérstaka athygli á, með leyfi forseta:
    ,,Við athugun á málinu taldi 1. minni hluti rétt með hliðsjón af ákvæðum núgildandi GATT-samnings að taka fram í greininni að tilefni takmarkana á innflutningi landbúnaðarvara eru þær aðgerðir sem beitt er hér á landi við stjórn á framleiðslu og sölu landbúnaðarvara.``
    Eins og fram kemur í nál. 1. minni hluta er frv. ætlað að tryggja það markmið sem kemur skýrt fram í frv. að innflutningur landbúnaðarafurða sé óheimill nema með leyfi landbrh. Þá skipan höfðu ráðherrar Alþfl. og þingflokkurinn samþykkti. Vissulega er slík heimild vandmeðvarin og það skiptir miklu máli að hæstv. landbrh. komi á skipulegri og vandaðri framkvæmd þeirra mála en frv. gerir ráð fyrir að nefnd þriggja ráðuneyta komi að því verki áður en ráðherra tekur ákvörðun. Með því er tryggt, að mínu mati, að sjónarmið þeirra sem óttast að um of verði gætt sérhagsmuna landbúnaðarins komist til skila og er það fullkomlega eðlilegt að mjög vandlega sé komið að þessum undirbúningi áður en ákvarðanir eru teknar.
    En spurt hefur verið: Hvers vegna þarf þessar takmarkanir á innflutningi landbúnaðarafurða? Í mínum huga eru ástæðurnar aðallega þrenns konar. Í fyrsta lagi vegna sjúkdómahættu sem gæti komið hingað til landsins og orðið mikill skaðvaldur. Í öðru lagi til þess að tryggja á íslenskum matvörumarkaði innlenda úrvalsframleiðslu landbúnaðarvara. Í þriðja lagi til þess að gefa bændum færi á aðlögun breyttra viðskiptahátta.
    Við blasir að miklar breytingar eru fram undan í skipan viðskipta milli landa. Við trúum því mörg að samningar okkar t.d. innan GATT tryggi hagsmuni okkar á mjög mörgum sviðum og því verði að aðlaga margt þeim samningum, m.a. skipan landbúnaðarmála.

    Á sama hátt blasa við þær stórfelldu breytingar sem hafa orðið og verða á högum íslenskra bænda vegna samdráttar í framleiðslu og sölu, harðnandi samkeppni milli greina, einkum í kjötframleiðslunni, og ekki síður vegna breytinga hjá afurðastöðvum og í viðskiptum með landbúnaðarvörur þegar spilaborg Sambandsins er hrunin yfir bændur landsins með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
    Það er við þessar aðstæður sem við sjálfstæðismenn höfum viljað fara varlega og tryggja sem mest má verða hagsmuni þeirra þúsunda Íslendinga sem byggja afkomu sína á landbúnaði, bæði beint og óbeint. Er það ekki síst vegna þeirrar erfiðu stöðu sem nú um sinn er á vinnumarkaði að við leggjum svo ríka áherslu á það að hagsmunir þessa fólks séu tryggðir sem mest og best má verða.
    Það hefur því valdið miklum vonbrigðum að Alþfl. skuli hafa valið þann kost að vega úr launsátri að landbúnaðinum þegar verst gegnir og hvetja til þess að aðilar notfæri sér smugur í löggjöf eða óljósa túlkun til þess að auðvelda innflutning þrátt fyrir að gert hafi verið samkomulag um að takmarka innflutning innan þeirra heimilda sem við höfum í milliríkjasamningum.
    Við þessa umræðu hafa verið fluttar tvær ræður af hálfu Alþfl. sem verða að teljast mjög óvenjulegar, svo ekki sé meira sagt. Sú fyrri var ræða hv. 4. þm. Vesturl., Gísla S. Einarssonar, þar sem hann gerði grein fyrir nál. sínu sem hann stendur einn að. Ræðan var vissulega löng og efnismikil og eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Austurl. var alveg augljóst að þar hafði verið gengið ríkulega í smiðju, svo sem eðlilegt er, hjá utanrrh. en í persónulegu ívafi þingmannsins voru að mínu mati óvenjulegar og tilefnislausar árásir á Sjálfstfl. Þessi málflutningur kemur mér mjög á óvart og er ekki í samræmi við ágæt vinnubrögð þingmannsins sem ég þekki mjög vel til. Það er augljóst að hv. þm. hefur fengið það hlutverk að vera talsmaður þeirra sjónarmiða innan Alþfl. sem vilja ganga lengra við að opna fyrir óheftum innflutningi iðnaðarvara, þar á meðal landbúnaðarvara, en nokkur önnur þjóð í Evrópu gerir. Meðal þeirra atvinnugreina sem nú blæðir fyrir þessa stefnu er skipasmíðaiðnaðurinn og ætti það að vera hv. þm. nokkurt umhugsunarefni.
    Seinni ræðan var ræða hæstv. utanrrh. sem flutti varnarræðu þess sérstaka málstaðar sem Alþfl. hefur verið að verja og skýra fyrir þjóðinni bæði til sjávar og sveita. Það fór ekki á milli mála að hæstv. utanrrh. var í mikilli vörn er hann reyndi að gera nál. 1. minni hluta tortryggilegt með því að tala um höfunda lagatextans sem lögvitringana þrjá, en sagði síðar í ræðunni að enginn hefði stefnt að hömlulausum innflutningi og átti þá vafalaust við Alþfl. þegar hann reyndi að draga í land í umræðunni.
    Þegar litið er á nál. 2. minni hluta, þ.e. hv. 4. þm. Vesturl., er af ýmsu að taka í undarlegum málflutningi. Þar er rakinn gangur málsins eftir að lýst hefur verið stuðningi við brtt. sem hv. þm. er meðflm. að ásamt fulltrúum Sjálfstfl. í nefndinni. En síðan er á 14 blaðsíðum í nál. reynt að gera breytingartillögurnar tortryggilegar. Það er t.d. ótrúlega barnalegt að halda því fram í nál. í kaflanum um vinnu sérfræðinga, sem þingmaðurinn virðist leggja mikið upp úr, að það hafi þurft Kjartan Jóhannsson sendiherra og fyrrv. formann Alþfl. til þess að skýra það út fyrir nefndarmönnum í hv. landbn. að jöfnunargjöld væru annað en tollar.
    Á grundvelli þessara mikilvægu sanninda Kjartans Jóhannssonar er síðan gerð grein fyrir þeim breytingum sem alþýðuflokksmenn telja sig hafa náð fram. Og hverjar skulu þær nú vera? Þar má nefna sem dæmi í 10 liðum, sem sagt er að séu breytingar á tillögum formanns landb., í fyrsta lagi að skilgreining á hugtakinu ,,landbúnaðarvörur`` er felld niður. Ég verð að segja eins og er að það getur vart verið mikilvægt innlegg eða mikill áfangi að það skyldi hafa tekist að fella þá skýringu út úr tillögum. Í öðru lagi að viðauka er skipt í tvennt í samræmi við upphaflegar tillögur Alþfl. og fjöldi vöruflokka var strikaður út. Ég hef ekki heyrt í þessari umræðu að nokkur ágreiningur hafi komið fram eða athugasemdir um þá vöruflokka sem eru hluti af frv. og hafa lagagildi. Í þriðja lagi er svo tíundað sérstaklega að hugtakið ,,heimsmarkaðsverð`` var skilgreint. Ég get rétt ímyndað mér að það sé ekkert hlaupið að því að skilgreina það hugtak út af fyrir sig en a.m.k. hefur orðið sá árangur, ef marka má þennan lið í nál., að það hafi tekist. Og í fjórða lagi að kveðið var á um að álagning verðjöfnunargjalda skyldi vera í samræmi við skilmála milliríkjasamninga. Ég get ekki ímyndað mér það að nokkur af hv. þm. landbn. hafi látið sér detta annað í hug en að verðjöfnunargjöldin yrðu að vera í samræmi við skilmála milliríkjasamninga.
    Virðulegi forseti. Þetta voru nokkur atriði af brtt. Alþfl. sem varaformaður landbn. náði fram gagnvart tillögum hv. formanns landbn.
    En hverjir skyldu trúa því að slíkar breytingar gætu næstum því valdið stjórnarkreppu? Með þessum hætti eru leiktjöld þessa ævintýris sett upp og það er nauðsynlegt að draga þau fram svo að flestir átti sig á þeim hættulega leikaraskap því miður sem ræður för Alþfl. þegar þeir hv. þm. fjalla um landbúnaðarmál.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum inna hv. 4. þm. Vesturl. eftir nokkrum atriðum sem varða frv., brtt. og nál. fulltrúa stjórnarflokkanna. Þegar skoðaðar eru athugasemdir í nál. Alþfl. vakna upp spurningar sem við hv. þm. þurfum auðvitað að gera okkur grein fyrir og velta rækilega fyrir okkur. Má þá í fyrsta lagi nefna hvað það er í nál. 1. minni hluta, sem hv. þm. Egill Jónsson hefur mælt fyrir, sem ekki er í samræmi við frv. Ég hef því miður ekki getað komið auga á að það sé skýrt eða gerð nægilega grein fyrir því í nál. hv. 2. minni hluta landbn.
    Í öðru lagi mætti velta því fyrir sér og væri fróðlegt út af fyrir sig að heyra um það, hvort skýringar í nál. 2. minni hluta feli í sér líkur á annarri framkvæmd laganna en skýringarnar í nál. 1. minni

hluta. Þetta er nokkuð sem skiptir máli og þarf að velta fyrir sér og skoða. Í lokaorðum nál. 2. minni hluta segir, með leyfi forseta:
    ,,Telja verður miður að á sama tíma og önnur lönd eru að færa sig frá miðstýringu í landbúnaði, sem Evrópusambandið er mikið gagnrýnt fyrir og gengur í berhögg við anda nýja GATT-samningsins, er verið að taka upp á Íslandi hliðstætt kerfi og Evrópusambandið notar.``
    Það er ekki skrýtið þó spurt sé hvort það sé óeðlilegt að við beitum svipuðum leiðum til þess að verja framleiðslu okkar þegar þær aðgerðir samrýmast samningum okkar við aðrar þjóðir. Eða eigum við að ganga enn lengra með þeim afleiðingum sem við vissulega þekkjum og mörg okkar óttumst gagnvart íslenskri framleiðslu, íslenskum iðnaði?
    Ég hef verið talsmaður þess innan míns þingflokks, virðulegi forseti, að leita allra leiða til þess að ná samkomulagi milli stjórnarflokkanna í landbúnaðarmálum. Ég tel afskaplega mikilvægt að þessir flokkar, sem hafa náð svo miklum árangri sem raun ber vitni í stjórnarsamstarfinu, láti ekki berast af leið í stjórnarsamstarfinu vegna ágreinings í landbúnaðarmálum, ekki síst þegar ágreiningurinn er í rauninni tilbúinn. ( Gripið fram í: Um hvað var þá þingmaðurinn að tala?) Ég tel að það sé afar mikilvægt að þessi sjónarmið komi fram við þessa umræðu en, eins og ég sagði fyrr, hefur það valdið mér vonbrigðum og hefur vakið upp margar spurningar um stjórnarsamstarfið og framtíð þess þó sem betur fer hafi náðst niðurstaða núna í þessu máli og ég vona að hún standi. En lengi má manninn reyna og langlundargeð okkar sjálfstæðismanna er mikið en allt hefur sín takmörk í pólitík sem öðru.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum lýsa yfir eindregnum stuðningi við brtt. sem hv. 3. þm. Austurl., frsm. 1. minni hluta landbn., hefur gert mjög rækilega grein fyrir og fulltrúi Alþfl. stendur að og ég fagna því. En ég vænti þess og vona satt að segja að hv. 4. þm. Vesturl. kalli aftur það nál. sem hér hefur verið lagt fram og halli sér að þeim traustu ráðgjöfum sem formaður hv. landbn. hefur leitað til í starfi nefndarinnar.