Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 20:50:35 (5105)


[20:50]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir hennar innlegg í andsvari. Ég er sannfærður um það að hún mun sem formaður þingflokksins leggja sig alla fram um það að þetta mál nái farsælli niðurstöðu. Ég gat ekki betur heyrt á hv. þm. og ég er sannfærður um að miðað við hennar orð um landbúnað ætti ekki að þurfa að vera nokkur ágreiningur, en því miður hefur hann komið upp og ef hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefði hlustað á ræðu fulltrúa Alþfl. í landbn. þegar hv. þm. mælti fyrir nefndaráliti sínu, þá hefði þingmaðurinn komist að raun um að það var mjög harkalega deilt á fulltrúa Sjálfstfl. Þingmenn Alþfl. þurfa því ekki að undrast það þó að við verjumst. Það á ekki nokkur að vera undrandi á því. Ég legg hins vegar áherslu á það fyrst og síðast að það verði náð niðurstöðu en sú niðurstaða á að vera á grundvelli þeirra breytingartillagna sem hér liggja fyrir og þess nefndarálits sem hv. 1. minni hluti landbn. hefur lagt fram.