Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 20:52:27 (5106)


[20:52]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég hef vissulega sem formaður þingflokks Alþfl. tekið þátt í allri umræðu um málamiðlun á milli flokkanna, hvort heldur er í landbúnaðarmálum eða öðrum málum. Ég hef starfað í meiri hluta þann tíma sem ég hef verið í stjórnmálum og geri mér fulla grein fyrir hve mikil þörf er á slíku samkomulagi, að koma sér saman um málamiðlun. Pólitíkin er þetta. Ég hef hlustað bæði á fréttir og hef tekið þátt í umræðu í þingflokki, málamiðlunum og fylgst með allri samningagerð í þessu máli sem öðrum. Það er samstaða um lagatexta. Þeir tveir sem voru hvor með sitt nefndarálit voru ósammála. Ég þekki þá sögu og ég þekki það innihald og ég skil og styð sjónarmið sem kom fram hjá fulltrúa Alþfl. varðandi hvernig hann lítur á þetta mál.
    Hitt er svo annað hvort við ætlum að reyna að koma okkur saman um þessi mál eða hvort þingmenn stjórnarflokkanna ætla að standa hér eins og hríðskotabyssur og skjóta hver á annan og til að karpa og takast á. ( ÓÞÞ: Og hvaða byssur skjóta nú?) Í því ætla ég ekki að taka þátt. Ég er að tala um vopnin, ég er ekki að beita þeim og ég vil bara leggja áherslu á að það er samkomulag um lagatextann, það er samkomulag milli stjórnarflokkanna hvernig skuli taka á málum gagnvart GATT og annað það sem kom fram í máli þingmannsins er mjög mikið ranghermi að mínu mati.