Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 20:55:37 (5108)


[20:55]
     Frsm. 2. minni hluta landbn. (Gísli S. Einarsson) (andsvar) :
    Frú forseti Hv. 1. þm. Vesturl. byrjaði á að ræða um að gerðar hefðu verið ítrekaðar tilraunir til að ná sáttum við undirritaðan. Ég lýsi þessu sem helberum ósannindum vegna þess að sá sem hér stendur hefur ítrekað leitað eftir að fá samstarf bæði um lagatexta og nefndarálit og því hefur verið hafnað. Alþfl. vill halda þeim lagatexta og þeirri túlkun sem úr honum má lesa og láta þar við sitja.
    Nefndarálit 1. minni hluta, hv. þm. Sturla Böðvarsson, á við lagatextadrög nr. 2. Lagatextinn sem við erum með er nr. 4. Alþfl. hefur marglýst því yfir að hann stendur ekki á móti neinu hvað varðar lög um hollustu eða dýrasjúkdóma né samsvarandi vörur sem fluttar eru hingað til lands. Við stöndum að fullu og öllu að því sem íslensk lög gera ráð fyrir og ég tel að það sé óþolandi að vera brugðið um svona lagað eins og hv. þm. gerði hér. Og það kalla ég, hæstv. landbrh., að vega úr launsátri þegar menn eru að læða svona löguðu inn.
    Varðandi skipasmíðaiðnaðinn þá hélt ég að hv. þm. Sturla Böðvarsson væri betur heima í málum skipasmíðaiðnaðarins en raun ber vitni. Það hefur staðið á fulltrúum flokks hans að framkvæma þær aðgerðir sem hæstv. iðnrh. hefur lagt til, en það hefur ekki staðið neins staðar annars staðar fast og stendur enn þar. Það væri fróðlegt að heyra þær tillögur sem hv. þm. hefur fram að færa í málefnum skipasmíðaiðnaðarins.