Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 20:58:01 (5109)


[20:58]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hefja sérstaka umræðu um skipasmíðaiðnaðinn hér. Það gefst væntanlega gott tækifæri til þess. En ég veit ekki betur en að hæstv. núv. iðnrh. hafi tekið við af Jóni Sigurðssyni, sem nú er bankastjóri Seðlabankans og var iðnrh. í nokkuð langan tíma. Ég minnist þess ekki að það hafi verið kvartað undan því að þeir hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Sigurðsson hafi ekki komið sér saman um í fyrri ríkisstjórn með hvaða hætti ætti að taka á vanda skipasmíðaiðnaðarins. Það þýðir því ekki að varpa þeim bolta til hæstv. núv. fjmrh. En þá umræðu getum við tekið síðar.
    Ég get út af fyrir sig kannski dregið í land með að það hafi verið erfitt að ná sáttum við Alþfl. við það að ná fram niðurstöðu í landbn. En eitthvað vafðist þetta nú fyrir mönnum og niðurstaðan varð sú að hv. 4. þm. Vesturl. reif sig frá stjórnarmeirihlutanum til þess að skapa sér sérstöðu með afar einkennilegum og athyglisverðum hætti sem er sá að skila sérnefndaráliti til þess að skýra breytingartillögur sem hann flutti með félögum sínum úr landbn.

    Varðandi það atriði að ég hafi ekki haft réttan lagatexta, hv. þm. nefndi að ég hafi átt að fjalla um fjórða lagatextann. Hér erum við að fjalla um breytingartillögur og það frv. sem lagt er fyrir þingið. Ég hef ekki aðgang að einhverjum bakskjölum landbn. sem síðan kunna að vera prentuð sem fskj. með nefndaráliti einstakra hv. þm., því miður. Ég get því ekki fjallað um önnur þingskjöl en þau sem eru lögð fyrir okkur á borð þingmanna.