Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 21:35:53 (5113)


[21:35]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú er ég sammála hv. þm. um það að Benedikt Gröndal var gott skáld og oft auðskilið. Ég minnist þess raunar að hann sagði í annan tíma: Stafsetning þessarar bókar er með ýmsum hætti til að þóknast öllum þeim sem aldrei komu sér saman, sem auðvitað kemur þessu máli ekki við sem við erum hér að fjalla um.
    En ég vil á hinn bóginn ítreka það sem ég sagði fyrr við þessa umræðu að sá lagatexti sem liggur fyrir í brtt. er fluttur af fjórum nefndarmönnum í landbn. en er saminn af þrem kunnum hæstaréttarlögmönnum og þeirra skýringar liggja fyrir í nefndaráliti 1. minni hluta, þeirra skilningur á þessum lagatexta og það er alveg ljóst að það ber að skilja lagatextann með þeim hætti.