Happdrætti Háskóla Íslands

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 21:45:13 (5123)


[21:45]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er nú svo að Íslendingar eru mikil happdrættisþjóð og miklir spilamenn. Ég hygg að það frv. sem hér er sett fram beri þess nokkurt vitni að menn vita um þessa fíkn og e.t.v. má segja sem svo að það sé ekki meira eða verra fyrir Alþingi að samþykkja það að menn megi tapa sínu fé í spilakössum heldur en leggja á skatta og taka peninga af mönnum hvort sem þeim líkar það betur eða verr.
    Ég taldi það mikla gæfu á sínum tíma þegar Íslendingar leyfðu lottóstarfsemi hér að íþróttafélög landsins og ungmennafélög náðu samkomulagi við öryrkja um rekstur á lottóinu. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið að á Íslandi muni að sjálfsögðu Háskóli Íslands verða flaggskip háskólamenntunar í þessu landi. En það er á fleiri stöðum sem kennsla fer fram á háskólastigi og ég tel óásættanlegt annað en að það náist niðurstaða í því máli að eitthvað af þeim fjármunum sem Háskóli Íslands fær í gegnum sína starfsemi fari til þess að efla háskólamenntun annars staðar á landinu. Ég tel að það væri mjög óskynsamlegt ef hver háskóli fyrir sig eða hver stofnun fyrir sig sem er með menntun á háskólastigi færi að standa að rekstri á hvort heldur það eru vélar, spilakassar eða happdrætti. Það hlýtur að vera skynsamlegra að reka þetta í einhverri stórri einingu en skipta svo með einhverjum heiðarlegum hætti þeim ávinningi sem af þessu hlýst.
    Nú er það hárrétt að Háskóli Íslands hefur einkaleyfi á peningahappdrætti. Það var á sínum tíma Jónas Jónsson frá Hriflu sem kom því til leiðar að svo varð og ég tel að það hafi verið háskólanum mikil lyftistöng að forsvarsmenn hans stýrðu þessu happdrætti með þeirri skynsemi sem þeir gerðu og það fjármagn hefur verið notað til uppbyggingar háskólans. En ég er jafnsannfærður um hitt að fyrir heildarhagsmuni íslenskrar þjóðar þurfum við að styðja við bakið á háskólamenntun í landinu, líka hjá þeim aðilum sem eru með slíka menntun þó að stofnanirnar séu miklu minni. Ég vænti þess að hæstv. dómsmrh. taki því ekki illa þó að slíkt komi upp í allshn. að umræða fari fram um þá hlið málsins.
    Á sínum tíma var það allshn. sem hóf þá umræðu hvort ekki væri rétt að hafa eitt lottó þegar Öryrkjabandalagið og íþróttahreyfingin voru farin að takast á um þessa hluti. Það náðust sættir í því máli og það varð að mínu viti mikið gæfuspor.
    Ég vænti þess og vil undirstrika það að lokum að ég tel að það eina sem þurfi að gæta vel að varðandi þessa kassa sem hér er verið að setja af stað er að börn og unglingar eigi ekki aðgang að þeim. Það er óverjandi ef það verður, það verður að gæta þess að slíkt gerist ekki, við eigum að standa að þessu með þeirri reisn að það sé ekki hægt að segja að Háskóli Íslands skaðist á því að þessi starfsemi sé af hinu illa gagnvart börnum og unglingum, við eigum að gæta þess að það séu aðeins fullorðnir sem spili í þessum kössum.
    Ég vænti þess að hæstv. ráðherra líti svo á að með þessum orðum sem ég hér læt falla þá tek ég jákvætt undir þetta mál og tel að við þurfum að afgreiða það helst á þessu þingi.