Málflytjendur

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 21:58:52 (5125)


[21:58]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um málflytjendur, nr. 61/1942, með síðari breytingum.
    Frv. er samið af sérstakri nefnd sem skipuð var að ósk Lögmannafélags Íslands til þess að gera tillögur að breytingum á lögum um málflytjendur en mjög brýnt þykir orðið að endurskoða nokkur ákvæði þeirra sem lítið hafa breyst í rúmlega hálfa öld. Koma þar ekki síst til gjaldþrot nokkurra lögmanna á síðustu árum sem kalla á að hugað sé að öryggi viðskiptamanna þeirra. Nefndina sem samdi frv. skipuðu þau Gunnlaugur Claessen ríkislögmaður, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Anna Guðrún Björnsdóttir deildarstjóri og Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður.
    Nefndin stóð frammi fyrir þeim kostum að semja frv. til nýrra heildarlaga um málflytjendur eða frv. til breytinga á þeim ákvæðum laganna þar sem þörfin til úrbóta er brýnust og varð síðari kosturinn fyrir valinu. Að athuguðu máli þótti rétt að gera ekki að þessu sinni tillögur um breytingar á ýmsum grundvallaratriðum sem mjög skiptar skoðanir eru um svo sem einkarétti lögmanna til málflutningsstarfa, skylduaðild lögmanna að Lögmannafélagi Íslands og fleira er að því lýtur. Var talið að tillögur þar að lútandi gætu tafið fyrir að brýnni endurbætur næðu fram að ganga. Í frumvarpinu eru því fyrst og fremst gerðar tillögur um breytingar sem snúa að öryggi viðskiptamanna lögmanna, þ.e. ákvæði um vörslu á fé viðskiptamanna á sérstökum reikningum og um skyldu lögmanna til að kaupa starfsábyrgðartryggingar, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Starfsábyrgðartryggingin á að tryggja viðskiptamanni lögmanns bætur ef hann verður fyrir tjóni sem lögmaðurinn ber skaðabótaábyrgð á vegna lögmannsstarfa sinna. Vátryggingin á að veita viðskiptamanninum vernd af hvaða ástæðu sem skaðabótaskylda lögmannsins stofnast ef það skilyrði er uppfyllt að ábyrgðin hafi stofnast vegna lögmannsstarfa. Ekki skiptir máli gagnvart viðskiptamanninum hvort skaðabótaskyldan stofnast vegna ásetnings eða gáleysis.
    Lagt er fyrir Lögmannafélag Íslands að setja reglur í samþykktum sínum um skyldu félagsmanna til að kaupa starfsábyrgðartryggingar. Þessi háttur er á hafður vegna þess að æskilegt þykir að nýta sérþekkingu félagsmanna til þess að móta skynsamlegar reglur í þessu efni. Ráðherra hefur vald til þess að grípa inn í telji hann reglurnar ekki fullnægjandi vegna hagsmuna viðskiptamanna lögmanna, sbr. 4. mgr. 2. gr. Í 2. málsl. 2. mgr. er tilgreint að í samþykktunum skuli kveðið á um lágmark vátryggingafjárhæðar og hámark eigin áhættu. Gengið er út frá því að félagið setji sjálft reglur um önnur atriði starfsábyrgðartryggingarinnar sem nauðsynleg eru að mati félagsins. Vátryggingin og skilmálar hennar eru lögum samkvæmt háð eftirliti Tryggingaeftirlitsins.
    Varðandi vörslu fjár á sérstökum reikningum er í 3. mgr. 2. gr. lagt til að lögmönnum verði gert skylt að aðgreina peninga viðskiptamanna sinna frá eigin fjármunum. Enn fremur að fé viðskiptamanna skuli varðveitt á sérstökum bankareikningum, einum eða fleirum. Þannig á að vera unnt að staðreyna að innstæða á bankareikningi samsvari öllum þeim fjármunum sem lögmaður varðveitir fyrir hönd umbjóðenda sinna. Inneign viðskiptamanns á slíkum vörslufjárreikningi stæði utan skipta við gjaldþrotaskipti á búi lögmanns.
    Ég tel ekki efni til að hafa þessa lýsingu á efni frv. lengri enda frv. ekki mikið að vöxtum og má vísa til athugasemda við einstakar greinar þess til nánari skýringa. Ég tel hins vegar að hér sé um mjög brýnt úrlausnarefni að ræða til öryggis fyrir viðskiptamenn lögmanna og mælist því sérstaklega til þess við hv. allshn. að hún hraði svo sem kostur er afgreiðslu þessa máls á yfirstandandi þingi. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.