Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 22:36:47 (5127)


[22:36]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Mér fannst hæstv. utanrrh. fara vel af stað í sinni ræðu þegar hann byrjaði að tala um frið, sáttartón forsrh. og annað í þeim efnum og má vera hins vegar að mér hafi fullfljótt fundist sem liðkaði um málbeinið hjá hæstv. utanrrh. því svo fór undir lokin að hann brigslaði mér, og skildi ég til hvers var talað, um fullkomna óbilgirni af verstu sort. Talaði um að Sjálfstfl. hefði ekki viljað standa við sáttarboð síðan í desembermánuði og skildi ég fullvel af hans málflutningi að þar var beinlínis átt við þann málflutnings sem ég hef uppi haft og vísaði til þeirra sjónarmiða sem ég hef haldið fram í ríkisstjórninni m.a. Þannig að það leikur enginn vafi á að þau ummæli sem hæstv. utanrrh. hafði hér áðan voru ekki hugsuð fyrir formann landbn. heldur var þeim beint til þess sem hér stendur og þá hygg ég líka að það sé best að sá sem hér stendur verði til þess að íhuga ummælin. Það er þá ekki í fyrsta skipti sem það kemur í minn hlut að svara hæstv. utanrrh.
    Vegna þess að hæstv. utanrrh. vék mjög tali sínu að formanni landbn. þá held ég að það sé óhjákvæmilegt af því tilefni --- ég hafði raunar ætlað að gera það á öðrum vettvangi --- að ég leiðrétti missagnir og rangtúlkanir sem hafa komið fram hjá fulltrúa Alþfl. í landbn. þar sem hann gerir tilraunir til þess að ófrægja eða a.m.k. varpa skugga á íslenskt réttarfar og gera lítið úr þeirri framkvæmd sem á því er og þá á ég við nokkrar kalkúnabringur sem sendar hafa verið til landsins með reglulegum hætti. Síðast þegar ég vissi voru sendingarnar orðnar tólf, alls 170 kíló, allar með vitlausu tollnúmeri, komu reglulega og ég hygg að það sé komið á annað ár síðan þær fyrstu fóru af stað og má kannski hugsa sér að það sé gott geymsluþol í þvílíkum mat sem hann ber mjög fyrir brjósti, hv. þm. Alþfl. á Vesturlandi, að íslenskir neytendur megi láta á sína diska án þess að innflytjandinn fullnægi þeirri skyldu að leggja fram nauðsynleg gögn um uppruna þessa matar, nauðsynleg gögn sem fylgja landbúnaðarvörum hvarvetna og er ekki talið til tíðinda.
    Þessi fulltrúi Alþfl. í landbn. segir m.a. um þetta mál í sinni ræðu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþfl. benti á að þessi aðferð skapaði í raun fleiri vandamál en hún leysti og má benda á dæmi um vöru sem nú stendur á hafnarbakkanum í Reykjavík. Kanadamenn hafa spurst fyrir um þetta mál á fundi í Genf nýlega þegar viðskiptastefna Íslands gagnvart GATT-samningunum var í fyrsta sinn til skoðunar.``
    Ég vil skjóta því hér inn að þeir fylgjast vel með viðskiptafulltrúar Kanadamanna að þeir skuli vita um 170 kílóa sendingu af kjúklingum til Íslands. Ég veit ekki alveg hvort fulltrúar utanrrh. fylgjast jafn vel með því sem er að gerast í landbúnaðinum og Kanadamennirnir. --- Síðan segir áfram, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Íslensk stjórnvöld fullyrtu að umrædd sending yrði afgreidd þegar viðeigandi heilbrigðisvottorð hefðu verið lögð fram. Kannast hv. þm. við þetta orðalag?``

    Hér gerir fulltrúi Alþfl. lítið úr heilbrigðiskröfum og heilbrigðisvottorðum. --- Áfram heldur lesturinn, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þau héldu því ekki fram að innflutningsbann væri fyrir hendi, enda hefur það verið afnumið. Spyrja má hvernig Kanadamenn bregðist við ef landbrh. beitir þeim heimildum sem hann fær með því frv. sem nú er lagt fram til þess að stöðva þennan innflutning. Lítil von er til þess að Kanadamenn láti þetta mál gleymast enda hafa þeir nú sent viðskiptafulltrúa sinn í Ósló til Íslands til þess að spyrjast fyrir um gang málsins.`` --- Svo mörg voru þau orð.
    Þetta varð til þess að landbrn. spurðist fyrir um það hjá hinum kanadíska fulltrúa um þessar kjúklingabringur. Og þótt skrýtið sé þá var kanadíska viðskiptafulltrúanum fullkomlega ókunnugt um kjúklingabringurnar og Hauk Hjaltason og lét þar að auki í ljósi mikla undrun yfir því að innflytjendur hér skyldu ekki vilja fara að lögum og reglum. Þannig að allt er þetta mál sviðsett og tómur tilbúningur. Ég geri mér hins vegar ekki grein fyrir því af hvaða sökum fulltrúi Alþfl. í landbn. taldi nauðsynlegt að draga þetta mál upp hér.
    Það er laukrétt sem hæstv. utanrrh. segir að það var samkomulag um það í ríkisstjórninni að eftir að hinn dæmalausi hæstaréttardómur féll . . .  ( Gripið fram í: Dæmalausi?) Ég sagði dæmalausi já. Eftir að hinn dæmalausi dómur Hæstaréttar féll að hið fyrra réttarástand yrði skapað, um það var ekki sagður neinn ágreiningur. Nú skulum við aðeins reyna að átta okkur á því um hvað við vorum að tala. Við vorum að tala um það að landbrh. fengi á nýjan leik heimild til að leggja verðjöfnunargjöld á landbúnaðarvörur, ekki aðeins þær sem milliríkjasamningar og fríverslunarsamningar kveða á um heldur yfir höfuð landbúnaðarvörur. Og það er fullkomlega rangt og fullkomlega í mótsögn við lagatextann frá því í desember ef því er haldið fram að allur hamagangurinn fyrir þau lög hafi einungis snúist um jógúrt og ( JGS: Smjörfitu.) smjörfitu. Það var ekki svo. Hamagangurinn hefði ekki verið slíkur ef einungis væri verið að tala um jógúrt og þetta veit hæstv. utanrrh. (Gripið fram í.) Það er kannski nauðsynlegt til þess að fylgja þessum ummælum mínum eftir að lesa upp lagagreinina eins og hún var samþykkt í desembermánuði. En við skulum jafnframt rifja upp að á þeim tíma var litið svo á að í gildi væri 52. gr. búvörulaga svohljóðandi:
    ,,Áður en ákvarðanir eru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarvara skulu aðilar, sem með þau mál fara, leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins.
    Innflutningur landbúnaðarvara skal því aðeins leyfður að Framleiðsluráð staðfesti að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni.``
    Sá lagatexti sem var samþykktur í desembermánuði var borinn undir mjög mæta lögfræðinga, hæstaréttarlögmenn, virta hæstaréttarlögmenn og þeir mátu það svo eins og lagatextinn leit út þá að það væri útilokað annað en þessi grein mundi halda. En því miður fór nú svo að Hæstiréttur dæmdi á annan veg sem hefur valdið þeim mikla glundroða í þessum málum sem hefur orðið síðan og hefur valdið því að menn eru mjög að setja landbúnaðarmálin í heild sinni í spéspegil og verið með útúrsnúninga, lagaþrætur, tilbúning.
    53. gr. fjallar um að landbrh. veiti leyfi til að flytja til landsins kartöflur, nýtt grænmeti, sveppi og blóm. Það er auðvitað alveg ljóst að samkvæmt lögunum í desember þá hafði landbrh. fulla heimild til að leggja verðjöfnunargjöld á innflutning slíkra vara. Það er algjörlega ljóst og alveg nýr lagaskilningur og ný lögfræði ef það er rétt sem hæstv. utanrrh. sagði að lögin í desember hefðu ekki heimilað slíkt.
    Nú skulum við aðeins líta á hvað þar stendur. Fyrsta málsgrein er svohljóðandi:
    ,,Þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessara [þá er vísað til 52. og 53. gr. fyrst og fremst] veitir landbrh. heimild til innflutnings á landbúnaðarvörum í samræmi við ákvæði fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að.``
    Þessi fyrsta málsgrein lýtur vitaskuld að 52. gr. fyrst og fremst og að sumu leyti að 53. gr.
    Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Nú heimilar ráðherra innflutning landbúnaðarvara og er honum þá heimilt að leggja á þann innflutning verðjöfnunargjöld til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara í samræmi við 3. mgr.``
    Það er alveg ljóst að í þessari 2. mgr. er ekki bara verið að tala um jógúrt. Það er algjör útúrsnúningur að halda slíku fram og alveg ljóst að hæstv. viðskrh. hefði ekki beðið um sérstakan fund í þingflokki Alþfl. bara til þess að ég fengi að ákvarða verðjöfnunargjald á jógúrt.
    Síðan segir í 3. mgr.: ,,Ráðherra ákveður með reglugerð á hvaða landbúnaðarvörur, þar með taldar unnar vörur sem innihalda landbúnaðarhráefni, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi`` --- þetta vísar til ,,unnar vörur`` ef menn kunna íslenskt mál --- ,,skuli leggja verðjöfnunargjöld við innflutning.``
    Þessi lagatexti er algjörlega skýr. En það er auðvitað rétt að menn verða að rýna í textann til að skilja hann.
    Ég vil líka að það komi fram vegna þess að það mál hefur verið tekið oft þannig upp að það hafi verið eins og gefið hafi verið í skyn að það hafi verið mín hugmynd sem landbrh. að búa til hinn langa vörulista sem fylgir þessu frv. Það er ekki svo. Það er krafa Alþfl. að frv. er lagt fram með þessu hætti. Í upphaflegri gerð Alþfl. var minnst á það að banna innflutning á jólatrjám í þessu samhengi. ( Gripið fram í: Það er nú bannað með lögum.) Okkur tókst þó í landbrn. að koma út af borðinu ákvæðum um það að mér væri heimilt að banna innflutning á froskalöppum og gat ég nú ekki séð hvaða tilgangi það þjónaði

satt að segja. Þannig að hugmyndin að textanum er Alþfl. og það er þess vegna hálfundarlegt þegar því er haldið fram hvað eftir annað í ræðu hæstv. utanrrh. að það hafi verið af einhverjum sérstökum sanngirnisástæðum sem við fengum pínulítið að krota í listann, sjálfstæðismenn. (Gripið fram í.) Það er þannig að ef tveir menn eru saman í ríkisstjórn þá verða auðvitað báðir aðilar að hafa eitthvað um málin að segja en ekki bara annar aðilinn.
    Ég vil líka að það komi fram og sé alveg skýrt, við höfum talað um það og það var gerð samþykkt um það í janúarmánuði 1991 hvaða kröfur og hvaða tilboð við Íslendingar gerðum í sambandi við GATT-samningana. Það er ekkert á þessari stundu sem bendir til annars en þess að GATT muni samþykkja tilboðið eins og það liggur nú fyrir. Það hafa engar alvarlegar athugasemdir komið fram um okkar tilboð svo mér sé kunnugt og má búast við því að í næsta mánuði muni það liggja fyrir hvort skrifað verði undir samkomulagið eins og það liggur nú fyrir hinn 25. apríl.
    Það má auðvitað tala um það langt mál, menn geta auðvitað rætt um það hér, framsóknarmenn og alþýðubandalagsmenn og alþýðuflokksmenn og hverjir sem er hvernig á því stendur að undirbúningurinn fyrir hugsanlega GATT-samninga skuli ekki hefjast fyrr en nú á síðustu missirum. Þó var það þannig að forveri minn, hv. þm. Steingrímur Sigfússon, ef ég hef réttar heimildir, brá sér úr landi vegna GATT-samninganna þegar á árinu 1990 þegar upp úr slitnaði þannig að á þeim tíma bjuggust menn við að GATT-samningar tækjust. Sú ríkisstjórn sem þá sat gat að sjálfsögðu undirbúið löggjöf til þess að mæta þeim skyldum og þeim samningsákvæðum sem við þá bjuggumst við að verða að ganga að.
    Hið sama á vitaskuld við um hið Evrópska efnahagssvæði. Það var búist við því, ef ég man rétt, að undir það yrði skrifað hinn 30. júlí. Undirbúningurinn að því að mæta þeim skuldbindingum og hvernig við viljum undirbúa landbúnaðinn fyrir þá nýju samkeppni sem þar verður hefði vitaskuld átt að geta hafist fyrr. Það er satt að segja grátlegt nú þegar í það stefnir að nýr GATT-samningur verði undirritaður jafnvel eftir mánuð rúman, þá skuli á Alþingi Íslendinga vera deilur um það með hvaða hætti okkur takist að styrkja þann atvinnuveg okkar, landbúnaðinn, sem ásamt sjávarútvegi aðaluppspretta er þeirra nýju atvinnutækifæra sem við getum búist við að fá í nánari framtíð ef undan er skilin ferðaþjónusta því að því miður hefur reynslan sýnt okkur að iðnaður sem ekki styðst við landbúnað eða sjávarútveg hefur ekki verið í færum um að vaxa þannig að hægt sé að tala um að hann hafi orðið að slíkri útflutningsatvinnugrein að okkur sé mikill styrkur í. Einungis skinnaiðnaðurinn hefur á sumum árum þegar verð hefur verið gott gefið okkur um milljarð í gjaldeyristekjur. Ef við horfum til þess iðnaðar sem mestur vöxtur er í nú og mestur árangur, þá er það kjötiðnaður og matariðnaður hvers konar, sem styðst bæði við landbúnað og sjávarútveg, sem hefur m.a. gert það kleift að lækka matarverð verulega til fjölskyldna og á þátt í þeirri miklu bjartsýni sem þrátt fyrir að mörgu leyti dökkt útlit blasir nú við í landbúnaði.
    Við skulum aðeins velta fyrir okkur hvort það megi verðjafna fyrir hráefni í unnum landbúnaðarvörum sem er ekki framleitt hér á landi. Um það vil ég segja þetta:
    Í viðbætum 2--7 og bókun 3, sem fjallar um verðjöfnun á unnum landbúnaðarvörum, eru settar fram vinnureglur um hvernig skuli framkvæma bókunina. Þær fjalla m.a. um hvernig verð skuli ákveðin, hvaða hráefni verðjafna megi fyrir og frágang tollskjala. Í þessum vinnureglum eru sérstök ákvæði um Ísland sem Evrópubandalagið hefur samþykkt. Í þeim segir að þrátt fyrir tilteknar takmarkanir í samningnum um möguleika landanna á að verðjafna fyrir fitu, svo sem mjólkurfitu, jurtaolíum og kjöti, skuli Íslandi heimilt að verðjafna fyrir fitum og jurtaolíum öðrum en fiskolíum og fyrir kjöti af svínum, nautgripum, sauðfé og alifuglum. Í samræmi við þetta hefur af Íslands hálfu þegar verið tilkynntur verðmunur á jurtaolíum til jöfnunar í fríverslunarsamningi EFTA/EB, svokallaðri bókun 2. Það verður að teljast fráleitt hafi verið hugmyndir manna um að setja þrengri ákvæði í íslenska löggjöf um verðjöfnun og á framkvæmd bókunar 3 en við höfum þegar samið um við Evrópubandalagið. Ég vil að þetta liggi alveg ljóst fyrir.
    Ég vil að síðustu segja að þegar við erum að ganga frá þessari löggjöf, ljúka þeim kafla sem lýtur að landbúnaðinum í tengslum við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði finnst mér ekki rétt að drukkna í löngum orðræðum um GATT og hvernig að undirbúningi þess skuli staðið að við göngum til slíks samkomulags. Ég vil aðeins ítreka það sem ég hef sagt hér áður að það er skoðun mín að samhliða því sem við losum um viðskiptahöft í landbúnaði og í öðrum atvinnugreinum er nauðsynlegt að fullkomið traust sé á framkvæmdinni hjá öllum þeim sem koma að viðkomandi atvinnugrein og öllum þeim sem hafa lífsframfæri sitt af að þjónusta viðkomandi atvinnugrein og, ég vil líka segja, sem eiga fjölskyldumeðlimi sem þessar fyrri skilgreiningar falla undir.
    Við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir því í fyrsta skipti síðan ég man eftir að verulegt atvinnuleysi er orðið viðloðandi hér og meira en viðloðandi, hefur verið hér alllengi, og við sjáum ekki fram á með hvaða hætti við getum kveðið það niður. Það er þess vegna alveg ljóst að í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur í öllum þeim fríverslunarsamningum sem við samþykkjum og göngum að, öllum þeim milliríkjasamningum sem við samþykkjum og göngum að, þá verður að vera vel fyrir því séð að íslenska atvinnugreinin, í þessu tilviki bændastéttin, geti treyst því að ekki verði á henni níðst, að ekki verði á henni gengið.
    Því miður var það svo á síðasta þingi að Alþingi samþykkti breytingu á innflutningslöggjöfinni. Þáv. hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson og Alþfl. fullvissaði mig um að vilji þeirra stæði ekki til þess að opna fyrir allar gáttir í sambandi við innflutning á landbúnaðarvörum. Ég spurði Jón Sigurðsson þessarar spurningar raunar eftir að hann hætti sem ráðherra og vona að það verði fyrirgefið þó að ég vitni í einkasamtal að þessu sinni, en hans skilningur var sá hinn sami. Á hinn bóginn kemur það fram í dómnum og var undarlegt, og undir það get ég tekið sem sumir hafa bent á, að eftir að hin nýju lög voru gengin í gildi, þá var án þess að landbrn. vissi um, án þess að ríkisstjórnin vissi um, felld úr gildi reglugerð í sambandi við bann við innflutningi á landbúnaðarvörum. ( Gripið fram í: Hver gerði það?) Þáv. viðskrh.
    Það er líka alvarlegt í þessu sambandi að rifja það upp að Alþfl. dró það allan sl. vetur að ganga frá frv. sem laut að landbúnaðinum í sambandi við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði eftir að samningurinn hafði verið samþykktur í þinginu. Það er rétt sem formaður landbn. sagði hér fyrr að þó svo að samkomulag hefði tekist milli Alþfl. og Sjálfstfl. í landbn., þá vorum við ekki að tala um einhvern aukvisa. Það var ekki verið að tala um neitt smápeð í Alþfl. Það var verið að tala um mann sem hafði farið sömu leiðina í Alþfl. og formaður hans og það var verið að tala um mann sem er núna ráðherra. Þá stóðu sakir þannig að ráðherrar Alþfl. vildu ekki standa við það sem þeir höfðu samið um við mig í sambandi við þessi mál þegar gengið var frá samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég tek því þess vegna ekki þegjandi þegar verið er að brigsla mér um það hér að ég hafi ekki staðið við samninga. Ég tek því ekki þegjandi.
    Það er talað um óvinafagnað, óbilgirni af versta tagi. Það getur vel verið að ég hafi sýnt óbilgirni í þessu máli, en ég vil þá segja að það hefur ekki verið að ástæðulausu. Og ef menn vilja hafa það þannig að ég hafi sýnt óbilgirni, þá skal ég fúslega viðurkenna að ég sé ekki eftir því. En að ég hafi ekki staðið við samkomulag er ekki rétt. Því vísa ég til föðurhúsanna.
    Ég vil líka segja út af því sem utanrrh. sagði um það að nauðsynlegt væri að átta sig á því hvað tæki við af búvörusamningi, þá er það laukrétt hjá honum og ég hef þegar hafið þá vinnu og mun leggja þær tillögur fram í ríkisstjórn þegar þær eru tilbúnar og ræða það við bændasamtökin.
    Ég ætla aðeins líka að segja þegar verið er að tala um óbilgirni og vegna þeirra hörðu orða sem hæstv. utanrrh. hafði um formann landbn. að ráðherrar geta haft sínar aðferðir við það að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Við erum stundum að tala um það að spara í ríkisrekstri og ég hef frá fornu fari bent á að það gerði svo sem ekkert til þótt ríkissjóður hætti að halda uppi Alþýðublaðinu. En það málgagn er mjög notað til þess að skýra viðhorf leiðtoga flokksins. Á hinn bóginn sjáum við stundum á síðum Morgunblaðsins aðstoðarmenn ráðherra koma fram, bæði aðstoðarmann utanrrh. og aðstoðarmann umhvrh. Það er auðvitað ekki hægt að líta svo á að slíkir menn skrifi þrásinnis í blöðin ónot um samstarfsflokkinn á bak við sinn ráðherra. Það er því alveg ljóst að þau skrif sem haldið er uppi af Alþfl. um landbúnaðarmálin af aðstoðarmönnum ráðherra og sú reiðiræða sem hæstv. utanrrh. flutti hér áðan, beindi til formanns landbn. en var ætluð mér, er ekki tilviljun og þjónar ákveðnum tilgangi. Það vill líka svo til að framkvæmdastjóri Alþfl. hefur gert grein fyrir því í Alþýðublaðinu þegar hann skrifaði um það hvernig Alþfl. ætti að búa sig undir þær sveitarstjórnarkosningar sem færu fram á næsta vori að formúlan væri sú að gera landbrh. tortryggilegan í þéttbýlinu og planið var þannig lagt fyrir. Á hinn bóginn þegar viðskrh. var um það spurður á fundi norður á Akureyri fyrir skömmu, út af því að menn vissu að hann hefur verið að tala um lágt verð á landbúnaðarvörum, hvort hann væri á móti jöfnunargjöldum tók hann mjög djúpt í árinni og gekk lengra en ég í þeim efnum því að hann sagðist reiðubúinn til að leggja 300--700% jöfnunargjöld á landbúnaðarvörur. En þetta var ræðan á Akureyri, hún passaði þar. Þetta mál er því svona.
    Ég taldi óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að víkja nokkrum orðum að þessu máli. Í fyrsta lagi stendur vilji minn til þess að nýta þær heimildir sem við höfum, bæði í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og í öðrum samningum til þess að íslenskur landbúnaður haldi sinni stöðu.
    Í öðru lagi er það alveg ljóst að heimildir samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir eru ekki, þótt þær séu verulegar, eins miklar og þær heimildir sem fólust í lögunum frá því í desember og það var að frumkvæði Alþfl. en ekki Sjálfstfl. að vörulistarnir voru upp teknir.
    Í þriðja lagi vil ég að það sé alveg ljóst að frá minni hálfu er það ekki úrslitaatriði hvort ákvæði varðandi GATT-samningana eru í þessu frv. nú. Í þeim efnum er aðalatriðið að þegar við gengum til samkomulags um frv. í desember var ákveðið að halda GATT-samningunum utan við og við það vildum við standa. Hins vegar er verið að vinna að nauðsynlegum lagabreytingum vegna þess samkomulags undir verkstjórn forsrh. Það er alveg ljóst í mínum huga að það getur ekki komið til þess að nýtt GATT-samkomulag verði samþykkt hér á Alþingi nema áður sé tryggilega frá því gengið hver verði staða landbúnaðarins og það er alveg ljóst að um það hefur tekist samkomulag í ríkisstjórninni að færa verðjöfnunargjöldin yfir í landbrn. og við það verður að standa, líka eftir GATT. ( Gripið fram í: Samkomulag, já.)