Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 23:07:27 (5128)


[23:07]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það væri synd að segja að það hefði verið sáttar- eða friðartónn í þessari ræðu hæstv. landbrh. Ég ætla að láta liggja á milli hluta tilvitnanir hans í einkasamtöl eða með hvaða hætti hann veitist að fjarstöddum mönnum. Ég ætla bara að halda honum við eina spurningu og hún er þessi: Um hvað gerðum við samkomulag, hæstv. landbrh., um lausn þessa máls? Það var í fyrsta lagi að endurreisa til hæstv. ráðherra þær bannheimildir varðandi innflutning sem hann hafði áður haft. Við stóðum við það.

    Það var í annan stað að við gengum lengra og settum inn á bannlista í febrúar fleiri vörutegundir sem þar höfðu ekki verið áður þannig að við jukum við bannheimildirnar af sanngirnisástæðum.
    Í þriðja lagi var samkomulagið um það að veita landbrh. heimildir til að leggja verðjöfnunargjöld á innflutning. Á hvaða innflutning, hæstv. ráðherra? Að sjálfsögðu á þann innflutning sem ráðherra er skylt að heimila samkvæmt fríverslunar- og milliríkjasamningum, það var vandi sem þurfti að leysa. Í annan stað stendur skýrt og skilmerkilega hvað samkomulagið var um. Það var um það að ráðherra getur með reglugerð ákveðið á hvaða landbúnaðarvörur, þar með taldar unnar vörur sem jafnframt eru framleiddar hér á landi að sjálfsögðu. Það þýðir að það er ósatt mál sem haldið hefur verið fram af hv. formanni landbn. og í greinargerð þeirri að allar landbúnaðarvörur, hvaða nafni sem nefnast, séu undir þessa sök seldar. Fyrr væri nú.
    Í fjórða lagi gerðum við með okkur samkomulag um það að framtíðarskipan tollamála í GATT skyldi fara í nefnd, forsrh. skyldi hafa forustu fyrir þeirri nefnd og fjögur ráðuneyti koma að því.
    Þetta var okkar samkomulag. Alþfl. stóð við það samkomulag upp á punkt og prik, er reiðubúinn til þess að standa við það samkomulag. Hæstv. landbrh., ef ráðherrann sem flutti þetta frv., sem samdi við þann sem hér stendur um þetta mál, sem stóð að því í ríkisstjórn, fékk það samþykkt í þingflokki en kemur síðan og segir að sá sem rauf þetta samkomulag túlki rétt eða hafi rétt fyrir sér, þá skil ég ekki ærlegheit í því samstarfi.