Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 23:32:26 (5131)


[23:32]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þar sem hv. þm. nefndi gjaldtöku á innfluttar franskar kartöflur þá rann mér blóðið til skyldunnar því ég hef spurt eftir þessu núna í þrígang þegar fjárlög eru afgreidd. Vegna þess að þegar ég hef skoðað tekjugreinina þá er þetta vandlega tíundað þar sem gildur tekjupóstur í ríkissjóð, hefur ef ég man rétt gefið svona frá 120--150 millj. kr. á ári. Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. að um árabil hefur hráefnið í franskar kartöflur sem hér á landi eru unnar verið flutt að langsamlega mestu leyti inn. Þannig að niðurstaða mín í þessu máli hefur verið sú að hér sé eingöngu um að ræða fjáröflunartoll fyrir ríkissjóð sem hæstv. fjmrh. í umboði hæstv. utanrrh. hefur lagt á. --- Vonandi hefur hæstv. utanrrh. lesið tekjugrein fjárlaganna. Gjaldtaka af þessu tagi er að mínu mati ekki til neins góðs fyrir íslenskan landbúnað. Ég ítreka það sem ég sagði að þessu virðist vera haldið þarna inni til fjáröflunar fyrir ríkissjóð og ekkert annað.
    Í öðru lagi það sem hv. þm. sagði um að íslenskur landbúnaður hefði gott af samkeppni --- ég vil í sjálfu sér ekkert draga úr því og auðvitað er hann í bullandi samkeppni við alls konar matvæli. En ég vil benda hv. þm. á að kynna sér þróun matvælaverðs úr innlendum landbúnaðarhráefnum og innlendum landbúnaðarvörum síðustu þrjú árin í samanburði við annað verðlag. Þá mun hv. þm. væntanlega komast að því að það er enginn einn þáttur í vísitöluþróun hér á landi síðustu ár sem hefur gert meira í því að lækka verðlagið heldur en búvörurnar. Þær hafa í raun hækkað langt umfram almennt verðlag sem þýðir á mæltu máli að þær hafa lækkað í verði.