Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 23:34:52 (5132)


[23:34]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Ég stend nú upp hér að gefnu til og þó aðallega fyrir forvitnissakir um vinnubrögð. Ég stend í þeirri trú að hv. 5. þm. Reykv. sé í þingflokki Sjálfstfl. Og ég spyr að gefnu tilefni: Hefur hann aldrei heyrt orðið neytendur nefnt þar í umræðu um þessi mál? Hann sagði að það hefði enginn nefnt það á nafn. Hefur hv. þm. ekki notað tækifærið til þess að beina spurningum sínum til hæstv. landbrh. samþingflokksmanns síns eða hv. formanns landbn., sem tók við stjfrv. sem fékk umfjöllun í þingflokknum og umturnaði því eins og hér hefur verið lýst rækilega? Hv. þm. spyr um hvað felist í viðaukunum, bannlistunum, og þótti nú nóg komið að það væri verið að endurreisa bannlistana en ekki bæta við þá. Er hv. þm. ekki upplýstur um það í þingflokksumræðunni að það var krafa landbrn. að bæta við níu þéttvélrituðum síðum af þessum bannvörum? Veit hv. þm. ekki hvað á þessum listum stendur? Veit hann eftir hverju var verið að slægjast til þess að fá að banna líka eins og t.d. að bæta við grænmeti og blómum? Hefur ekki verið rætt um það, hefur ekki verið farið ofan í saumana á þeirri frumvarpsgerð sem formaður landbn. mælti með, og stjórnarandstaðan mælti með líka, sem hefði falið í sér að hækka hámarkstolla á matvælum sem nú eru um 30% upp í þessi hundruð og jafnvel þúsundir prósenta sem hv. þm. nefndi? Hvar var hv. þm. í þingflokknum þegar málið var til umræðu? Það er búið að deila um þetta hér í opinberu þjóðlífi, takast á um þetta vegna þeirrar óbilgirni sem sýnt var í málsmeðferðinni. Var málið aldrei rætt í þingflokki Sjálfstfl.? Á hv. þm. kannski einhverja bandamenn í þingflokki Sjálfstfl. sem hafa heyrt orðið neytendur og gera sér grein fyrir því að ef þetta frv., eins og formaður landbn. gekk frá því, hefði gengið fram þá hefði verið hér um að ræða framsal á opnum gjaldheimildum til hæstv. landbrh., hverju nafni sem hann nefnist og hver sem kemur síðar, upp á mörg hundruð prósent sem hefði m.a. þýtt það að gjaldtakan hefði yfirleitt alltaf farið yfir innlent heildsöluverð? Þetta var vissulega kjarni málsins. Þetta mál snerist ekki um lögfræði, það snerist um lífskjör. Það snerist um málefni neytenda.