Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 23:37:30 (5133)


[23:37]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Ég sagðist hafa saknað þess að heyra orðið neytendur í þessari umræðu. Ég er að tala um umræðuna hér í dag, um þennan dagskrárlið sem núna er til umræðu. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki náð að hlusta á hverja einustu ræðu. Ég man aðeins eftir einum þingmanni sem hefur notað orðið neytendur í einhverjum mæli og það er hv. þm. Gísli S. Einarsson. Ég minnist þess ekki annars. Ég minnist þess að hafa heyrt hér talað um tvö nefndarálit meira og minna í ræðum hjá mönnum.
    Það er vissulega gott að heyra að hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af því hvar ég er staddur þessa og hina stundina, hvort ég er á þingflokksfundi eða ekki. Ég get upplýst hann um það að mínum málum hefur hagað þannig að það er orðið nokkuð síðan ég hef getað setið fundi í þingflokknum. Það er vafalaust rétt hjá honum að það er ástæðan fyrir því að ég er að spyrja þessara spurninga. En úr því að ráðherra kemur hér upp og fer yfir tollskrárnúmerin og furðar sig á því að ég sé að leita svara við þessum spurningum þá vill hæstv. ráðherra kannski gera mér þann greiða að svara þeim. Hvað felst í þessum númerum? Ég er ekki viss um að það hafi verið farið yfir þau hvorki í þingflokki Alþfl. né Sjálfstfl. Ég efast stórlega um það. En hafi verið farið yfir þau í þingflokki Alþfl., þá ætti ráðherra að vera það létt mál að fara yfir þau fyrir mig svona í fljótheitum því þetta eru 74 númer, ég læt mér duga svona kannski 20 eða 30. Þannig að það væri ágætt að spara þá formanni landbn. eða hæstv. landbrh. sporin hér upp í ræðustól, alla vega hvað það varðar. Hitt er annað mál að auðvitað er ég alveg sammála því að þetta snýst að miklu leyti líka um lífskjör. Ég tel að það hafi nú verið þráðurinn í ræðu minni hér áðan.