Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 23:39:43 (5134)


[23:39]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég verð eiginlega að lýsa því yfir að mér er nokkur vandi á höndum, tel ég vera, stjórnarandstæðingi að koma hér inn í þessa umræðu eins og hún hefur þróast og staðið í mestallan dag. Og reyndar mátti sama segja um fimmtudaginn en þá stóð hér linnulaus umræða í nálægt fimm klukkustundir ef ég man rétt og í henni tók þátt einn stjórnarandstæðingur. Að öðru leyti voru það framsögumenn mismunandi nefndarálita stjórnarsinna og hæstv. ráðherrar sem stóðu fyrir umræðunni. Þetta hefur þróast mjög á svipaðan veg hér í kvöld. Upp að vissu marki hefði verið fróðlegast að fá að halda áfram að hlýða á skoðanaskipti og tjáskipti hv. stjórnarsinna um málið því allt er það nú upplýsandi svona á sinn hátt, bæði það sem efnislega kemur fram en þó ekki síður jafnvel orðbragðið sem gripið er til. Ég vil segja það strax, hæstv. forseti, að ég teldi að mörgu leyti eðlilegast í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast og í ljósi þess sem hér hefur komið fram að henni væri nú frestað eða a.m.k. væri séð til þess að 2. umr. um málið lyki ekki við þessar aðstæður. Það kemur til af því að margt nýtt hefur gerst síðan málið var tekið út úr landbn. þingsins. Fyrir það fyrsta lágu þá ekki fyrir nál., a.m.k. ekki nál. 2. minni hluta landbn., þó drög að nál. 1. minni hluta hefðu verið sýnd. Það er alveg ljóst að tilkoma nál. 2. minni hluta eru veruleg tíðindi í málinu sem landbn. sem slík hefur ástæðu til að fara yfir. Í öðru lagi hafa síðan orðið hér um málið miklar umræður. Í þær hafa blandað sér hæstv. ráðherrar með yfirlýsingum stórum. Margt af því hlýtur að teljast til tíðinda. Þegar þetta er lagt saman, bæði það sem komið hefur fram svona efnislega og sögulega um málið þá held ég að það gefi meira en næg tilefni til þess að landbn. taki málið til sín á nýjan leik og fari yfir það. Menn fái útskrift af ræðum og yfirlýsingum hæstv. ráðherra og geti borið þetta saman og reynt að átta sig á því hvernig málið stendur. Ég vek t.d. athygli á því að hér kom í ræðustólinn stjórnarsinni, hv. 1. þm. Vesturl., og hvað hafði hann fram að færa m.a.? Þá kröfu að 2. minni hluti landbn. dragi nál. sitt til baka, kallaði það aftur því það væri villandi og beinlínis rangt og ætti ekki heima í umræðunni.
    Ég held, hæstv. forseti, að málið standi þannig að það sé bersýnilega alveg óhjákvæmilegt að farið verði yfir það mjög vandlega á nýjan leik og það verður væntanlega hæstv. landbn. að gera nema hæstv. ríkisstjórn hafi áhuga á að reyna að taka málið fyrir með einhverjum öðrum hætti. En svo virðist reyndar ekki vera. Ég hlýt þess vegna í fyrsta lagi, hæstv. forseti, að óska eftir því að hæstv. forsrh. komi hér til umræðunnar áður en henni lýkur og okkur gefist tækifæri til að leggja þá spurningu og mér gefist tækifæri til að leggja þá spurningu fyrir hæstv. forsrh.: Telur hann að það sé eðlilegt að umræðunni ljúki nú og málið tekið til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu hér við svo búið? --- Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hæstv. forsrh., sem lofað var að mundi reyna að vera viðstaddur umræðuna, sé í húsinu?
    Að öðru leyti vil ég segja það um svör hæstv. forsrh. í dag að þau voru ákaflega rýr í roði, svo ekki sé nú meira sagt, bera náttúrlega keim af því að þar talaði beygður maður eftir átökin í ríkisstjórninni, fram úr hófi hógvær, miðað við það sem við eigum að venjast af hálfu hæstv. forsrh. og hann reyndi að gera sem minnst úr þessum deilum á allan hátt. En ég tel að umræðan eins og hún hefur síðan þróast hafi nokkuð ómerkt þau orð hæstv. forsrh., að þarna væri svo sem engin deila á ferðinni sem orð væri á gerandi milli stjórnarflokkanna. Ætli það sé ekki svo að orðaskipti hæstv. ráðherra og stjórnarsinna hér, þar á meðal þingmanna Vesturl, 1. og 4. þm. Vesturl., hafi sannfært okkur um að þetta er nú býsna djúpstæður og alvarlegur ágreiningur sem þarna er á ferðinni og illvígur orðinn. Ég set því bara sviga utan um tilraunir hæstv. forsrh. hér um miðjan dag til að breiða yfir þetta allt saman og slá á þá strengi að þarna væri ekki um neina deilu að ræða. Ég vísa til þess sem ég áðan sagði að það er að mínu mati gjörsamlega óhjákvæmilegt að málið verði skoðað á nýjan leik í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir.

    Í öðru lagi hélt hv. 3. þm. Austurl., formaður landbn., eina af sínum gagnmerku ræðum. Hún gekk að verulegu leyti út á það að svara hv. varaformanni landbn., hv. þm. Gísla S. Einarssyni. Hv. þm. taldi að sér vegið þar sem hann væri sakaður um að brjóta samkomulag stjórnarflokkanna og taldi alveg sérstaklega að hæstv. utanrrh. hefði ekki efni á að viðhafa slíkt orðbragð. Síðan talaði hv. formaður landbn. mjög í véfréttarstíl um tengingu þessa frv. við GATT. Því hv. þm. sagði orðrétt, ég held að ég hafi náð því rétt niður: ,,Auðvitað bíða GATT-málefnin að stærstum hluta.`` Að stærstum hluta, sagði hv. þm. En svo bætti hann við: ,,En þetta frv. tekur til þess [þ.e. GATT-samningsins] eins og annarra milliríkjasamninga.`` Þetta kalla ég nú véfréttarstíl. Og í raun og veru er hv. formaður landbn. bæði að reyna hið ómögulega í þessum orðum, bæði að sleppa og halda.
    Síðan hafði hv. þm. mörg orð og stór um það hvernig væri að vinna með Alþfl. og ætla ég ekki að blanda mér í þau orðaskipti því að er nú gæfa Sjálfstfl. um þessar mundir að vinna með Alþfl., að hafa valið sér hann að samstarfsaðila. Þess vegna er meira og minna marklaust fyrir þá hv. sjálfstæðismenn að bera vandræði sín á torg við aðra í þeim efnum. Það er þeirra húsböl og heimiliskvöl að vinna með Alþfl. og verður að auðvitað að skoðast sem slíkt.
    Svo komu hér fram ýmsar merkilegar upplýsingar eins og þær að hv. þm. Egill Jónsson fullyrti að það hefði verið að kröfu Alþfl. í fyrravor sem þinginu var slitið með þeim ætti sem sögufrægt varð. Það hafi verið að kröfu Alþfl. ( Utanrrh.: Fráleitt.) Fráleitt, segir formaður Alþfl. og er nú ekki aldeilis sammála. Ja, svona stendur þetta þá. Formaður landbn. fullyrðir hér án þess að blikna í ræðustólnum ( EgJ: Þú varst nú vitni að því.) að þetta hafi verið að kröfu Alþfl. Formaður Alþfl. harðneitar því hér í frammíkalli og segir fráleitt.
    Ekki ætla ég að elta ólar við allt það sem hv. formaður landbn. sagði hér t.d. um nál. 2. minni hluta. Hann eyddi löngu máli í það að útskýra að fylgiskjal með nál. væri falsað, væri beinlínis falsað og eru það nú nokkuð þung orð og stór að bera mönnum nánast skjalafals á brýn en það var eiginlega ekki nokkur leið að leggja öðruvísi út af orðum hv. þm. Egils Jónssonar. ( Gripið fram í: Það er allt á sömu bókina lært.) Hann taldi að hv. þm. Gísli S. Einarsson hefði verið niðurlægður hroðalega með því að þjóna utanrrn. í störfum sínum, vera málpípa utanrrn. Og fleiri ummæli féllu reyndar í svipaðan farveg. Þannig viðhafði hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson í framhaldi af þessum orðaskiptum í skáldlegri tilvitnun þá speki yfir að sitt væri að yrkja en annarra að skilja og talaði þar í orðastað þeirra sem hlut eiga að máli.
    Eitt vil ég þó taka fram að þegar hv. þm. Egill Jónsson, formaður landbn., gerir úr því mikið mál að höfundar nál. séu lögfræðingarnir þrír sem jafnframt unnu frumvarpstextann fyrir landbn., ja, þá er mér ekki alveg ljóst hvað þar er verið að fara. Vegna þess að þessir lögfræðingar geta ekki borið sem slíkir ábyrgð á nál. á Alþingi. Nál. á Alþingi er flutt af þeim sem undir það skrifa og þeir bera ábyrgð á því sem þar stendur. Ef menn hins vegar vilja lýsa inn í bakgrunn málsins og fara yfir söguna þá hygg ég að það sé nokkuð til í því sem hv. þm. Gísli S. Einarsson segir og þetta byggi ég á því að ég sat þessa fundi í landbn. þegar þetta mál var til umfjöllunar eins og kunnugt er, að drög að þessu nál. séu tengd eldri útgáfum af frumvarpstexta en þeirri sem varð svo niðurstaðan eftir samkomulag stjórnarflokkanna. Ég spurði að því, eins og ég veit að hv. formaður landbn. getur staðfest, á næstsíðasta fundinum í landbn. sem ég sat hvenær einstakir kaflar í þessu nál. hefðu orðið til og hvaða breytingum það hefði tekið eftir samkomulag stjórnarflokkanna sem tekist hafði þá um eða eftir helgina. Því var þá svarað að nál. væri í öllum aðalatriðum óbreytt og hefði verið tilbúið fyrir helgina. Þetta er staðreynd og ég vona að ég verði ekki sagður fara rangt með þessa hluti. ( EgJ: Rétt.)
    Nú ætla ég ekki að hafa um þetta önnur orð en þessi en auðvitað skiptir það máli út frá hverju höfundarnir, sem hér er verið í raun og veru að gera lögfræðingana þrjá, gengu þegar þeir settu þennan texta niður á blað. Ég eyddi nokkrum tíma í það í ræðu minni í dag að útskýra það sem öllum má ljóst vera sem fara yfir gögn í málinu að breytingarnar á frv., þessar tvær breytingar að taka inn orðin ,,og jafnframt eru framleiddar hér á landi`` í upphafsmálsgrein 72. gr. og sú breyting að fella út viðmiðunarverðið eða útreikningsverðið og tenginguna við GATT í tölulið 2.4, eru síðan undirstaða málflutnings 2. minni hluta. Það er þannig og þess vegna hlýtur það auðvitað að þurfa að skoðast í samhengi og það mun verða gert í fyllingu tímans ef svo fer að þetta verði lögfest óbreytt og verði síðan að lögþrætum hvernig þessi mál standi. Þetta held ég að sé rétt að hafa aðeins í huga.
    Síðan er það þannig, hæstv. forseti, að hafi menn verið í einhverjum vafa um það að niðurstaða stjórnarflokkanna væri ekki sú að ná utan um þetta mál og eyða um það óvissu þá geta menn ekki verið það lengur. Þessi umræða er búin að standa á fimmtudaginn var og í dag, linnulaust, samtals líklega í eina 10--14 klukkutíma, borin uppi af stjórnarsinnum í þrætum um það hvað í málinu felist. Það er auðvitað ekki nokkur leið að horfa lengur fram hjá því að það er bullandi ágreiningur um málið í stjórnarflokkunum. Það er uppi algjörlega gagnstæð lagatúlkun og það þýðir ekkert að segja við okkur endalaust að textinn sé skýr. Það dugar ekki. Hins vegar er út af fyrir sig hægt að gera hann skýran og ég ætla að varpa fram þeirri hugmynd til umhugsunar fyrir menn sem ég held að væri ágætt að menn færu með í bólið og svæfu svo á þessu máli og ræddu það ekki mikið meira að sinni, að einhver laginn maður taki það að sér að útbúa í breytingartillöguformi texta sem gerir Alþingi kleift að greiða atkvæði um þessa mismunandi lagatúlkun. Það er enginn vandi og ef ekki verða aðrir til þess þá skal ég taka það að mér að útbúa um það brtt. ( JGS: Ólafur Þ. Þórðarson er búinn að því.) Ég get tekið sem dæmi að það er afar einfalt mál að útkljá

í lagatextanum sjálfum þá þrætu hvort jöfnunargjaldaréttur landbrh. skuli eingöngu taka til innlendra hráefnisþátta í samsettum vörum eða allra landbúnaðarhráefna. Það er enginn vandi. Er þá ekki best ef menn vilja ganga skýrt og klárt frá málinu að það sé gert með atkvæðagreiðslum um slík álitamál hér á þinginu en lagaþræturnar og nefndarálitin túlkandi þetta í 180 gráður séu ekki látin standa eftir? Það er niðurlægjandi fyrir Alþingi. Það er ekki frágangur sem sæmir eftir alla þá umræðu sem orðin er um óvissuna í þessum efnum. Ef menn taka brtt. annaðhvort á þskj. 672 eða þskj. 702 og skoða 1. mgr. b-liðar 2. gr., þ.e. upphaf 72. gr. laganna eins og lagt er til að hún orðist, þá stendur þar, með leyfi forseta:
    ,,Landbúnaðarráðherra er heimilt, til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara, að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur sem tilgreindar eru í viðauka I og II með lögum þessum`` --- og svo kemur breytingin að kröfu Alþfl. --- ,,og jafnframt eru framleiddar hér á landi. Verðjöfnun á unnum og/eða samsettum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra.``
    Þarna má bæta inn orðunum ,,miðast við þátt landbúnaðarhráefna innlendra og erlendra í verði þeirra``. Um þetta má flytja brtt. og um hana má greiða atkvæði og þá ræður meiri hluti Alþingis því hvor skilningurinn verður ofan á og fer inn í lagatextann og þannig á auðvitað að gera þetta. Ég segi það ef menn fara ekki svona í málið eftir þrætuna sem hér er orðin og í ljósi nefndarálitanna, þá eru menn viljandi að ganga frá þessu máli í óvissu. Er hv. þm. Egill Jónsson tilbúinn til að standa að því að útbúa brtt. sem eru í samræmi við hans túlkun á textanum og gera hann afdráttarlausan? Um það snýst spurningin. Ég legg til að landbn. taki málið aftur til sín áður en 2. umr. lýkur og fari yfir það svona því þetta gengur ekki. Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á það eina ferðina enn að dulbúa ósamkomulag stjórnarflokkanna í óljósum lagatexta af því að það er rétt að það er hægt að túlka hann í báðar áttir. Það er því miður rétt. Ég verð að segja það sem mína skoðun, menn geta gert það með hana sem þeir vilja, að því miður óttast ég að sú framsetning og túlkun sem Alþfl. stendur hér fyrir í málinu gæti reynst mönnum skeinuhætt, t.d. í meðferð málsins fyrir dómstólum.
    Þröng túlkun af hálfu dómstóla gæti leitt til þess að valdsvið landbrh. yrði takmarkað og verðjöfnunargjaldaheimildin eingöngu við innlenda hráefnisþáttinn. Og það vitum við að getur þýtt að verðjöfnunarsvigrúmið er allsendis ófullnægjandi til að varan verði á samkeppnisfæru verði miðað við innlenda framleiðslu. Ef menn skilja ekki við hvað er átt þá nægir að nefna viðbit þar sem mjólkurfitan er orðin mjög lágt hlutfall. Það er auðvitað alveg ljóst ef við tökum vöru eins og Létt og laggott og ef mjólkurfitan er kannski orðin 25%, aðeins einn fjórði af vörunni, afgangurinn jurtaolía, og ef svigrúm landbrh. til verðjöfnunar er bundið við þennan fjórðung þá dugar það ekki nema að mjög litlu leyti til að ná vörunum upp á samkeppnishæft verð. Þess vegna er þetta úrslitaatriði efnislega og það þýðir ekki að stinga hausnum í sandinn og láta hendingu ráða því, þó það megi kannski ekki kalla dómsniðurstöðu hendingu sem kynni að verða einhvern tímann á næstu mánuðum, hvort verður ofan á, túlkun hv. þm. Egils Jónssonar eða fulltrúa Alþfl. Allt svo, þetta er ekki hægt og ég tala hér í mikilli alvöru. Við getum ekki, hv. alþm., látið málið fara svona í gegn. Það mun þykja nóg á spjöldum sögunnar að samstarfsaðilar í ríkisstjórn hafi sent frá sér nál. með þessum hætti sem raun ber vitni þó að hitt bætist ekki við að það liggi alveg fyrir að menn hafi dulbúið efnislegan ágreining í óljósum texta og látið sig hafa það að sulla því í gegnum þingið. Það er ekki boðleg afgreiðsla á málinu. --- Hæstv. forseti. Ég var að inna eftir því hvar hæstv. forsrh. væri. Er djúpt á honum?
    ( Forseti (VS) : Forseti fékk þær fréttir að hæstv. forsrh. hlýðir á mál hv. þm. í þinghúsinu.)
    Má hann illa við því að koma hér í þingsalinn eða vera einhvers staðar í sjónmáli?
    ( Forseti (VS) : Forseti á von á því að hæstv. forsrh. birtist innan tíðar í þingsalnum.)
    Ég vil ekki ljúka máli mínu fyrr en ég hef átt færi á því að eiga aftur orðastað við hæstv. forsrh. um þetta af því að ég held að málið sé á því stigi að ef það á annað borð er til einhvers að ræða það yfir höfuð þá hlýtur það að vera að ræða það við hæstv. forsrh. sem á þó að heita, er það ekki, að nafninu til, enn þá verkstjórinn í þessari ríkisstjórn. Þetta er þannig --- hæstv. forsrh., velkominn í salinn. Síðan við ræddum þessi mál í dag hefur enn bæst í sarpinn bullandi, bullandi ágreiningur hæstv. ráðherra í ríkisstjórn hæstv. forsrh. um málið og hörð skeyti sem hér gengu á milli manna. Ég tel þess vegna að málið sé, hafi það verið í óvissu og ljóst orðið að ágreiningur var uppi í því eftir umræður á fimmtudaginn var, eftir þessi nefndarálit sitt í hvora áttina þá hafi enn bæst við í þeim efnum í kvöld af því að það er alveg ljóst að það harðnaði mjög í orðaskiptum hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. um þetta mál. Það virðist vera fyllsta harka í því af hálfu beggja aðila skulum við segja að túlka málið gjörsamlega á sínum ýtrustu forsendum. Hæstv. landbrh. gekk svo langt að segja að hefði hann sýnt einhverja óbilgirni í þessu máli í samskiptum við Alþfl. þá sæi hann ekki eftir því og verður nú varla öðruvísi skilið en hæstv. landbrh. telji þá eiga það inni hjá sér og rúmlega það jafnvel að hann hafi sýnt þeim óbilgirni eða hörku í þessu máli.
    Sama má auðvitað segja um orðaskipti hv. þm. Sturlu Böðvarssonar og síðan svör þeirra hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og Gísla Einarssonar, þau orðaskipti voru ekki beint systkinaleg og hv. þm. Sturla Böðvarsson ítrekaði þá kröfu sína að nál. 2. minni hluta yrði kallað aftur og að það væri skilningur hv. þm. Egils Jónssonar og ekkert annað sem ætti að ríkja í þessu máli.
    Ég vil aðeins vekja athygli á því að hæstv. landbrh. kom hér með ýmsar merkar upplýsingar, þar á meðal sakaði hann --- ég vissi ekki nema ég ætti að skilja það svo að það væri einhvers konar sameiginlegt samsæri utanrrn. og e.t.v. fjölmiðla um að hafa sviðsett áhyggjur Kanadamanna af innflutningi af nokkuð öldruðum kjúklingabringum sem munu vera að þvælast einhvers staðar í reiðuleysi út af þessum deilum og eru komnar nokkuð til ára sinna ef marka má orð hæstv. landbrh., þar sem í ljós hefði komið þegar málið var kannað við kanadísk yfirvöld að þau hefðu ekkert af þessu vitað og hefðu af þessu engar áhyggjur. Margt er merkilegt sem hér er að koma fram.
    Einnig tel ég að það hafi verið gagnlegt að fá þær upplýsingar fram og þær staðfestar, sem ég er reyndar ekki hissa á, að sú aðferð að setja fram tollskrárnúmerin sem viðauka með frv. sé krafa Alþfl. í málinu. Þá liggur það væntanlega þannig að hæstv. landbrh. eða Sjálfstfl. hefur gefið það eftir að forræði landbrh. yrði orðað með almennum orðum og í staðinn fallist á og þá væntanlega til samkomulags að þessi tolllistaleið yrði valin sem væri þá afmarkandi með einhverjum hætti umfram það sem almennt orðað forræði landbrh. yfir þessu verkefni hefði verið. Auðvitað er gagnlegt að hafa það skjalfest í þingtíðindunum að það hafi verið að kröfu Alþfl. sem þessi tolllistar litu dagsins ljós með öllum froskalöppunum og öllu ,,gúmelaðinu`` sem þarna var boðið upp á. Hins vegar er mér mjög til efs að þarna hafi verið valin skynsamleg leið og ég lét það koma fram strax þegar farið var að skoða málið í landbn. að ég teldi að stjórnskipulega væri eina fullnægjandi aðferðin sú að ganga frá með almennu orðalagi verkaskiptingu landbrn. annars vegar og viðskrn. og utanrrn. hins vegar hvað viðskiptaþættina snertir, fjmrn. hvað gjaldtökuna snertir og það væri gert með sambærilegum hætti og verkum er skipt milli ráðuneyta á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og reglugerð sem þeim lögum fylgir. Auðvitað ætti að gera þetta þannig. Auðvitað á niðurstaðan, ef hún er einhver niðurstaða, að ganga inn í verkaskiptingu ráðuneytanna með sama hætti og öðrum verkefnum er skipt og koma inn í reglugerð um Stjórnarráð Íslands þannig að þar sé tekið fram hvert forræði hvers er í þessum efnum. En þessi klúðursleið, þessi vandræðaleið, vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa ekki náð saman á nokkurn hátt í málinu er sem sagt niðurstaðan, þessi tolllistaleið og hún er, segir hæstv. landbrh., að kröfu Alþfl.
    Aðrir geta, ef þeir hafa á huga á því, farið svo yfir stóryrði ráðherranna, hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh., þegar þeir fóru vítt um völlinn og ræddu ólíklegustu hluti, samkomulag sem þeir hefðu gert sín í milli og sökuðu hvorir aðra um að hafa svikið, greinarskrif aðstoðarmanna ráðherra og ég veit ekki hvað og hvað og var þá víða farið yfir völlinn og reyndar get ég tekið undir það með hæstv. landbrh. að mér þykja nokkuð sérkennileg þessi atvinnuskrif, liggur mér við að segja, pólitískt ráðinna aðstoðarmanna ráðherra og vaknar upp sú gamla spurning sem borin var fram fyrr á öldinni: skjóta byssurnar sjálfar? --- þegar aðstoðarmennirnir eru að skrifa níð um samstarfsmenn ráðherra sinna í ríkisstjórn. Skjóta þá byssurnar sjálfar eða er það e.t.v. þannig að það sé eitthvað fitlað við gikkinn af húsbændunum, hæstv. ráðherrum?
    Já, það eru nýir siðir auðvitað sem fylgja nýjum herrum og þeir um það.
    Ég vildi gjarnan ef hæstv. landbrh. á eftir að tala meira í umræðunni sem sjálfsagt verður nú, ekki síst ef henni yrði frestað, að hann talaði bara afdráttarlaust. Út af fyrir sig kýs ég gjarnan að skilja að hann hafi gert það þegar hann ræddi um GATT og forræði hvers í þeim efnum, að það sé skoðun hæstv. landbrh. að það sé frágengið í ríkisstjórninni að þegar það verður lögfest með skýrum hætti hver fari með það verkefni að leggja á jöfnunargjöld í samræmi við heimildir Úrúgvæ-niðurstöðu GATT-samninganna þá verði það landbrh. Ég held að það sé í sjálfu sér mjög mikilvægt þó að það sé ekki að koma inn í lagatextann sjálfan ef hér liggur fyrir yfirlýsing frá hæstv. landbrh. sem mætti vera skýrari um að hann líti á það sem samkomulag í ríkisstjórninni að það verði landbrh.
    Hæstv. landbrh. sagði langleiðina þetta undir lok ræðu sinnar áðan en þó kannski ekki alveg með þeim afdráttarlausa hætti sem ég hefði viljað heyra. Orðaði það eitthvað á þann veg að komið væri samkomulag um að færa jöfnunargjöld yfir í landbrn. og það mundi gilda fyrir og eftir GATT eins og hæstv. landbrh. orðaði það. Ef það er svo þá er fróðlegt að það sé staðfest og einnig fróðlegt ef hæstv. utanrrh. mótmælir ekki þessari túlkun landbrh. Þá hefur það auðvitað nokkurt gildi.
    En eftir standa fullyrðingar ráðherranna sem ganga alveg gjörsamlega þvert hver gegn annarri og undir lok ræðu sinnar áðan klykkti hæstv. utanrrh. út með því að ítreka að það væri ósatt eins og hann reyndar kaus að orða það að valdsvið landbrh. hvað jöfnunargjöldin snerti næði til allra innfluttra landbúnaðarvara, það næði eingöngu til vara sem framleiddar væru hér innan lands og þar stendur fullyrðing gegn fullyrðingu í þessu grundvallarmáli.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá að fara að ljúka máli mínu, ég ítreka þær óskir mínar til hæstv. forseta að hæstv. forseti taki það til skoðunar að umræðunni verði frestað áður en henni ljúki nú við 2. umr. þannig að ef það kynni að verða niðurstaðan, sem ég mundi eindregið hvetja hæstv. forsrh. til, að málið verði tekið til skoðunar á nýjan leik og jafnvel látið ganga til landbn. áður en þessari umræðu lýkur þannig að hugsanlega yrði unnt að útbúa nýjar brtt. og eyða þessari óvissu sem bersýnilega er verið að framlengja í málinu, þá gefist kostur á því áður en 2. umr. lýkur um málið. Það yrði þá hægt að skila framhaldsnefndarálitum og nýjum brtt. og ganga þannig með alveg skýrum hætti og afdráttarlausum frá lagatextanum að menn gætu eftir atvikum, ef ekki næðist samkomulag, greitt atkvæði um álitamálin. Greitt einfaldlega atkvæði um álitamálin þannig að það lægi þá fyrir skýr niðurstaða meiri hluta Alþingis, t.d. um þetta tvennt sem aðallega hefur verið umfjöllunarefnið í orðaskiptum manna, hvert valdsvið landbrh. nákvæmlega er gagnvart álagningu jöfnunargjaldana. Eru það allar innfluttar landbúnaðarvörur eða bara þær sem jafnframt eru framleiddar innan lands? Og hvort heimild ráðherrans nær gagnvart álagningu verðjöfnunargjalda, samsettra eða unninna vara, úr landbúnaðarhráefnum, tekur það eingöngu til innlendu hráefnisþáttanna eins og Alþfl. túlkar það eða til allra landbúnaðarhráefnisþátta?
    Þetta er hægt að gera með þeim einfalda hætti að útbúa um það brtt., fella þær inn í lagatextann á þeim stöðum sem viðeigandi er og ef ekki er um það samkomulag og hvort sem heldur er út af fyrir sig yrði svo greitt um það atkvæði og Alþingi hefði þar með tekið af skarið.
    Ég veit að hæstv. forsrh. getur í hjarta sínu ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að þetta væri hinn besti frágangur málsins. Ég vona að hæstv. forsrh. sé ekki svo illa farinn af deilunum í ríkisstjórninni og áhyggjum sínum yfir því að þetta óskabarn og hugarfóstur hæstv. forsrh. sé að liðast í sundur í höndunum á honum að hann gangi yfir samvisku sína í þessu efni. Ég treysti því að svo sé ekki komið því ég trúi því ekki að hugsandi maður og löglærður í ofanálag, eins og hæstv. forsrh. er, láti sér detta það í hug að bera það á borð fyrir okkur lengur að hér sé verið að ganga frá málinu með einhverjum fullnægjandi hætti, sem taki af allan vafa, eyði allri réttaróvissu o.s.frv. því það er auðvitað borin von að halda slíku fram lengur. Hafi það einhvern tímann verið hægt á grundvelli textans þá er það alla vega ekki nú eftir að nefndarálitin og yfirlýsingar ráðherranna og umræður hafa hnigið í þann farveg sem raun ber vitni.
    Ég óska þess vegna eftir því að hæstv. forsrh. taki þetta til umhugsunar, svari þessu eftir atvikum eftir því sem honum sýnist hér núna og jafnframt að hæstv. forseti taki til skoðunar þá ósk mína að umræðunni verði nú eða áður en mælendaskrá er tæmd og henni lýkur frestað þannig að tóm gefist til að fara yfir þessi mál og athuga þau áður en lengra er haldið.