Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 00:18:49 (5138)


[00:18]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað einfaldlega svona. Ég segi dapurlegt að hæstv. forsrh. kemur hér upp, hann er tekinn hér upp í tveimur grundvallaratriðum deilunnar og hann neitar að svara, kemur sér undan því að svara með einhverjum útúrsnúningum um það að þetta hafi líka staðið svona í desember og hann hafi sinn skilning og ég minn skilning á því. Ég er að spyrja um það hvað forsrh. í þessari ríkisstjórn, hverrar ráðherrar deila hér eins og hundur og köttur um það hvernig eigi að túlka þennan sama lagatexta. Hvað segir þá forsrh. ef t.d. kemur til þess að hæstv. forsrh. eigi að fella úrskurð á grundvelli laganna um Stjórnarráð Íslands? Hver verður þá niðurstaðan? Það hlýtur að mega spyrja um það, það skiptir máli. Er valdsvið landbrh. til að leggja á verðjöfnunargjöld samkvæmt lagatextanum, úr því að hann er svona skýr og ljós hverjum manni, að mati hæstv. forsrh. þannig að landbrh. geti lagt þetta á allar innfluttar búvörur? Hæstv. utanrrh. hristir hausinn. Hv. þm. Egill Jónsson kinkar kolli. Hvorum er hæstv. forsrh. sammála? Einfaldari getur spurningin ekki verið. Hristir hæstv. forsrh. hausinn eða kinkar hann kolli? ( Utanrrh.: Lögin svara því.) Já, að þínu mati, hæstv. utanrrh.
    Í öðru lagi, hæstv. forsrh., er þetta mjög einföld spurning með hráefnisþættina. Þetta er grundvallarspurning, skiptir sköpum um það hversu víðtækar í raun jöfnunargjaldaheimildir landbrh. eru gagnvart samsettum vörum. Má hann verðjafna fyrir bæði innlendu og erlendu hráefnisþáttunum eins og hv. þm. Egill Jónsson segir og kinkar kolli, eða bara innlendu þáttunum eins og hæstv. utanrrh. segir. Getur ekki hæstv. forsrh. nú tekið af skarið og komið upp og a.m.k. afdráttarlaust lýst sinni skoðun hvorum megin deilunnar hann stendur? Hvorum er hann sammála, hæstv. utanrrh. eða hv. þm. Agli Jónssyni? Þetta hljóta að vera nógu einfaldar og skýrar spurningar til þess að hægt sé að svara þeim.