Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:02:21 (5140)


[01:02]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. nefndi hér til einhverja leynilögfræðinga sem voru að fella stóra dóma um störf þingsins og þá eiða sem þingmenn hafa gert en treysti sér ekki af einhverjum ástæðum til að nefna þá. Ég býst við að virtir lögfræðingar eins og hv. þm. nefndi hefðu ekkert á móti því að vera frekar fyrir opnum tjöldum heldur en einhverjir leynilögfræðingar. Séu þeir ekki nefndir hér af einhverjum ástæðum, þá hlýt ég að halda mig við þann grunn að þessi lögfræðilegi hjúpur sem þarna var slegið upp hafi verið þau ummæli sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var að fjalla um í lögfræðinni, en hv. þm. ekki talið það nógu virðulegt og þess vegna sagt að það væri hópur virtra lögfræðinga sem hann treysti sér er ekki til að nefna. En það má vel vera að hv. þm. komi hér á eftir og greini frá þessum virtu lögfræðingum, hvað þeir heita, því ég er viss um það að þessir kollegar mínir vilja ekki vera einhverjir leyndarmenn hér í salnum heldur er ég fullviss þess að hv. þm. megi nefna þá sem stóðu fyrir þeim stóru dómum sem hann sérstaklega nefndi.
    Varðandi hitt atriðið sem hv. þm. nefndi að væri stórfrétt kvöldsins að ekki hefði staðið til hér að staðfesta GATT-samninga eða ljúka nefndarstörfum fimm manna nefndar og klára þau mál fyrir þinglok --- sem er nú ekki nema einn og hálfur mánuður eftir og páskarnir í mínus --- þá er ég hræddur um að hv. þm. hafi ekki fundið neina stórfrétt þar. Þetta held ég að allir hafi vitað hér í þingsalnum nema þá kannski hv. þm. Hann hafi ekki vitað það.
    Í þriðja lagi þá tek ég eftir því bæði af orðum hv. þm. og hv. þm. Páls Péturssonar hér fyrr í dag að báðir þingmennirnir sjá eftir því og líta á það sem mistök, þó þeir vilji ekki viðurkenna það beint, að hafa ekki skrifað upp á nefndarálit hv. formanns landbn. Það kemur glöggt fram að þeir líta á þetta sem mistök af sinni hálfu. En ég skil mjög vel að þeir hafi lent í þessum ógöngum af því að þeir ætluðu að reyna að verða sér úti um smávegis pólitískan ávinning og ég skil það.
    Varðandi GATT sem nefnt er, þá býst ég við að ég verði að koma hér í seinna andsvarinu ef ég fæ tækifæri til, það reynir á hv. þm. og bæta því við því tíma mínum er lokið.