Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:04:26 (5141)


[01:04]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég nefndi áðan að ég mun fara fram á það milli 2. og 3. umr. að við fáum lögfræðilegt mat á þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð við þessa afgreiðslu og við skulum láta það tala.
    Það er afar sérstætt að heyra hæstv. forsrh. koma hér upp hvað eftir annað, fyrst í dag og aftur núna, og gera bæði þeim sem hér stendur og öðrum upp skoðanir um hvað þeir vildu hafa gert. Nei, svo sannarlega vildi ég ekki hafa tekið þátt í þeim skrípaleik sem meiri hluti Alþingis er hér að setja á svið varðandi lagasetningu. Það hefur aldrei staðið til.
    Ég hlýt hins vegar að lokum að ítreka þá spurningu til hæstv. ráðherra hvað hann átti við í sjónvarpsfréttum fyrir nokkrum vikum þegar hann sagði að það væri afskaplega lítið í þessum GATT-samningum fyrir okkur Íslendinga og það væri alveg undir okkur komið hvenær og ef ég man rétt nánast hvort við mundum samþykkja Úrúgvæ-lotu GATT-samninganna. Þetta fannst mér skjóta algerlega skökku við alla þá umræðu sem hafði farið fram hér á Alþingi. Það er bara einn þingmaður sem ég man eftir sem hefur opinberlega lýst því yfir að hann sé á móti GATT og hann er reyndar í þingflokki hæstv. forsrh., hv. 6. þm. Suðurl. sem hefur lýst því yfir úr þessum ræðustól.