Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:06:40 (5142)


[01:06]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er merkilegt að þingmanninum hafi komið það á óvart að ég hafi sagt að það væri undir okkur sjálfum komið hvort við staðfestum GATT. Vissi þingmaðurinn ekki að þingið verður að staðfesta GATT? Þar með er það undir okkur komið. Síðan er aftur annað mál hvort menn vilja gera það eða ekki. Það er önnur saga. Ég var að útskýra að það væri undir okkur komið, það yrði að staðfesta GATT hér í þinginu, það vissu ekki allir. Það kom fram í hinni opinberu umræðu að menn vissu það ekki og ég nefndi það sérstaklega.
    Í öðru lagi vakti ég athygli á því fyrirkomulagi sem er varðandi GATT-samningana því þar hafði líka verið misskilningur í hinni opinberu umræðu. Tímasetningin um GATT er ekki bindandi í sjálfu sér fyrir okkur. Við getum samþykkt hér í þinginu að gerast aðilar að GATT-samkomulaginu í samræmi við hina nýju lotu GATT. (Gripið fram í.) Hv. þm. á ekki að vera að snúa út úr þessu, hann á að vita betur. Við getum ákveðið þetta sjálfir og án þess að það sé í sjálfu sér stórkostlegur skaði skeður. Menn eru ekki að brjóta þann viðræðugrundvöll sem menn hafa farið í gegnum, hvort sem menn gera það mánuðinum fyrr eða síðar eða missirinu fyrr eða síðar. Það er frjálst. Á hinn bóginn eru þær upplýsingar sem ég hef núna, sem ég hef ekki náð að kanna, að ef það dregst lengur en tvö ár, þá kunni að þurfa að ræða það sérstaklega, þá staðfestingu. Við drógum það síðast í 19 ár að staðfesta þá samninga sem við höfum tekið þátt í varðandi GATT, þannig að það er mönnum frjálst. En ég hygg, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að það sé mikill vilji til þess að Íslendingar taki almennt þátt í þeim alþjóðlegu samningum sem um er að ræða. Menn verða hins vegar að átta sig á því hvaða tímamörk eru í þessum efnum. Menn verða að þekkja það sem þeir eru að ræða.