Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:20:30 (5151)


[01:20]
     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég hef verið að fylgjast með þessum umræðum hér í dag og fram eftir kvöldinu til að reyna að átta mig á því hvað stæði á bak við það að við höfum fengið mál með svona sérkennilegum hætti inn í þingið. Og mér finnst ég vera nokkru nær en það er eitt sem ég hef sannfærst um og það er að þingið getur ekki afgreitt málið frá sér eins og hér er fyrir lagt. Það er þinginu til svo mikillar niðurlægingar að ég trúi því ekki að svo muni fara. Það hlýtur að vera krafa til Alþingis að það gangi þannig frá málum að það sé ekki augljós ágreiningur þar sem þingmenn hnakkrífast um hvað það þýði sem þeir hafa lagt fyrir þingið. Ég tek þess vegna undir þá kröfu að hér verði látið staðar numið í umræðunni og að menn taki þetta mál aftur til skoðunar með það fyrir augum að reyna a.m.k. að ná samkomulagi um hvað það þýði sem verið er að fjalla um í þinginu en séu ekki að koma með lagatexta sem þeir eru sammála um en ósammála um hvað þýði.