Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:39:42 (5155)


[01:39]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Egill Jónsson hafði um það þau orð í ræðu fyrr í kvöld að margt í nál. 2. minni hluta væri með ódæmum. Nú kom hv. þm. hér upp og taldi að málin væru nú að nokkru leyti fullskýrð en vék sér hins vegar með öllu undan því að svara síðustu tíðindaræðunni í umræðunni sem var andsvarsræða hæstv. utanrrh. Málið er nákvæmlega á byrjunarreit, ágreiningur stjórnarflokkanna er með öllu óleystur, kristallast undir lok umræðunnar eins og hann liggur fyrir og er lýst í gagnstæðum nefndarálitum og nú í ræðum trekk í trekk. Síðast kom þessi grundvallarágreiningur fram í mjög skýrri og stuttri andsvarsræðu hæstv. utanrrh.
    Hv. þm. Egill Jónsson getur flutt eins margar ræður og fara gerist. Það mun ekkert breiða yfir það úr þessu að það er ætlun stjórnarflokkanna, að því er best verður séð, studd af forsetum sem hafna óskum um að fresta umræðunni, að knýja þetta mál til afgreiðslu við þessar aðstæður. Er það framtíðin sem á að bjóða okkur upp á hér að stjórnarflokkarnir skili bara gagnstæðum nefndarálitum og það verði kannski bara venjan í meiri háttar málum að stjórnarflokkarnir skili hver sínu nefndarálitinu sem fylgiskjölum með stjórnarfrumvörpum og túlki niðurstöðurnar út og suður? Er það þannig sem menn vilja ganga frá þessu? Er ekki sæmst að viðurkenna að þetta hefur mistekist með öllu, það stendur ekki steinn yfir steini í samskiptum og svokölluðu samkomulagi stjórnarflokkanna um þessi mál? Við erum komin aftur á byrjunarreit. Sláum striki yfir allt sem reynt hefur verið fram að þessu og tökum málin upp á nýjan leik. Það er eina vitið.
    Ég ítreka ósk mína til hæstv. forseta um að hann leggi lið sóma Alþingis með því að fresta umræðunni, sjái til þess að henni ljúki ekki og haldi því opnu að unnt sé að flytja brtt. við 2. umr. málsins og reyna að bjarga því sem bjargað verður.