Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:44:04 (5158)


[01:44]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í fyrra lagi þá þýðir náttúrlega ekki fyrir hv. þm. Egil Jónsson að láta eins og það skipti engu máli að skýr og afdráttarlaus túlkun hæstv. utanrrh., sem fer með viðskiptamál að hluta til því utanríkisviðskipti heyra undir það ráðuneyti, og sem jafnframt er formaður annars stjórnarflokksins, á þessum lagatexta skipti engu máli þegar hún er alveg í gagnstæða átt við það sem hv. þm. er í sínu nál. og ræðum að rembast við að halda fram. Allt svo, það er ekki hægt að ganga fram hjá því sem atriði sem engu máli skiptir þegar ráðherra í ríkisstjórn gefur yfirlýsingar af þessu tagi sem hér var gert af hálfu hæstv. utanrrh. Nú er ég ekki bandamaður hæstv. utanrrh. hvað afstöðu í málinu varðar. Það breytir engu um að það væri mikill barnaskapur að ímynda sér að menn gætu bara látið sem ekkert væri og það sé ekkert mál, grúfa sig bara ofan í textana sem voru skrifaðir fyrir löngu síðan og halda sig við þá og hanga eins og hundar á roði á því. Málið er ekki svona einfalt. Það mun koma á daginn, jafnvel þó að menn olnbogi þessu í gegnum Alþingi með þessum hætti, að hér hafa orðið heilmikil tíðindi sem munu draga dilk á eftir sér.
    Í öðru lagi varðandi það sem hv. þm. segir um brtt. okkar stjórnarandstæðinga þá eru þær í tveimur grundvallaratriðum frábrugðnar því sem varð niðurstaðan af moðsuðu stjórnarflokkanna. Þarna er ekki þessi tilvísun til innlendrar vöru, sem samkvæmt túlkun Alþfl. þrengir valdsvið landbrh., og GATT-tengingunni er haldið inni.
    Þetta veit hv. formaður landbn. og á auðvitað ekki að reyna undir lok umræðunnar að fara að koma með einhverjar barnalegar túlkanir um það að þetta sé nánast sami hluturinn. Við vitum það báðir allt of vel að brtt. sem nokkuð góð sátt var að skapast um í landbn. voru eyðilagðar þegar látið var undan kröfum Alþfl. í tveimur veigamiklum atriðum.