Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:46:19 (5159)


[01:46]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Bændur jafnt sem neytendur eiga á því rétt að fá að vita hvort hér sé verið að bjóða í lagatexta upp á einhverja réttaróvissu eða skýr svör. (Gripið fram í.) Það vill svo til að þeir þurfa ekki að óttast það. Með leyfi forseta hljóðar textinn svo:
    ,,Landbrh. er heimilt, til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara, að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur sem tilgreindar eru í viðauka I og II með lögum þessum og jafnframt eru framleiddar hér á landi.``
    Skýrara þarf það ekki að vera. Bannheimildirnar eru skýrar, þær eru í viðaukum sem hafa lagagildi. Verðjöfnunargjaldaheimildirnar eru skýrar, þær eru í viðaukum sem hafa lagagildi en eiga við vörur sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, að sjálfu leiðir. Um GATT þarf ekkert að vera að þvæla, textinn sem var í upphaflegu frv., sem landbn. hafði til umfjöllunar, grein 2.4, um það mál var tekinn út. Fyrir liggja yfirlýsingar um það hvernig um það mál verður fjallað í framtíðinni og sem betur fer er rík ástæða til að ætla að um það geti orðið góð samstaða.
    Það er ekki verið að bjóða upp á óvissu og þess vegna geta hv. þm. greitt lagatextanum, sem hér liggur fyrir, atkvæði með góðri samvisku. Það hefði verið fullkominn friður um þetta mál frá upphafi vega ef sú niðurstaða hefði verið eins og var í stjfrv. frá upphafi.