Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 01:50:18 (5161)


[01:50]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Þetta mál, sem hér er komið til 2. umr. eftir fádæma skrautlegan feril í gegnum tíðina, var flutt til þess að eyða réttaróvissu um innflutning landbúnaðarafurða. Málið hefur snúist um það í kvöld hvort það hefur gerst. Hvort þetta mál, ef það verður samþykkt við 2. umr. og hlýtur síðan samþykki við 3. umr., eyðir réttaróvissu um þetta mál. Málið hefur löngum þótt illskiljanlegt og hæstv. forsrh. lét svo um mælt í sjónvarpsviðtali frekar en útvarpsviðtali ef ég man rétt að það skildu þetta mál fáir, hann varla sjálfur, og satt að segja hafi það verið illskiljanlegt áður þá er það ekki frekar skiljanlegt eftir þessa umræðu sem farið hefur fram hér í kvöld eða það hafi lokið upp þeim leyndardómum hver er endanleg lagatúlkun í þessu máli. Satt að segja hafa staðið um málið stórdeilur, það hafi verið túlkað sitt í hvora áttina. Það er auðvitað skylda ef hv. þm., hæstv. ríkisstjórn og forsn. bera einhverja virðingu fyrir þingstörfum að kalla málið inn til nefndarinnar aftur eða að öðrum kosti að fresta þessari umræðu svo það sé hægt að ræða þetta mál til hlítar og fá skýringu á þeim atriðum sem hér hafa komið fram í kvöld.
    Ég vil minna á að það hafa verið bornar fram málefnalegar fyrirspurnir um málið af hv. 5. þm. Reykv. Því er svarað á þann veg af hv. formanni landbn. að hann hafi vissar áhyggjur af því máli sem fyrirspurnin var um. En ef ég skildi hann rétt þá sagði hann að það yrði að koma í ljós hvernig þetta reyndist. Ég vil minna á það að við 2. umr. málsins er atkvæðagreiðsla um einstaka þætti þess. Atkvæðagreiðslan við 3. umr. er allt annars eðlis. Þá er tekin afstaða til málsins í heild þannig að það er alls ekki viðunandi að keyra þetta mál áfram þannig að umærðu verði lokið um það. Ég vil nú skora á hæstv. forseta að endurskoða þá ákvörðun forsn. að ljúka umræðunni á þessari nóttu. Það væri ekkert athugavert við það að gera örstutt fundarhlé til að láta þá endurskoðun fara fram ef forsn. hæstv. þarf að bera saman ráð sín um málið þá er auðvelt að gera fundarhlé í tvær til þrjár mínútur til að tóm gefist til þess. Ég þekki það af fyrri reynslu að það getur verið þörf á slíku samráði og miðað við breyttar aðstæður. Því það er satt að segja móðgun við bændur landsins og það fólk sem vinnur í landbúnaði og atvinnugreinina sem heild að afgreiða málið frá þinginu með þessum hætti. Það er náttúrlega gjörsamlega óþolandi að það verði gengið til þessa verks eins og hér er ætlunin og raunin á.
    Það hafa fallið ýmis gullkorn í þessari umræðu og það væri að æra óstöðugan að tína það allt saman upp. Hæstv. sagði landbrh. á þá leið að landbrh. eigi að leggja á verðjöfnunargjöld og við það verði að standa líka eftir GATT. Síðan kemur hæstv. utanrrh. og segir hér nokkurn veginn orðrétt: Um GATT þarf ekki að vera að þvæla. Hvað á óbreyttur þingmaður sem hefur þó verið að reyna að fylgjast með umræðum um þetta mál að álykta? Hvað á fólkið í landinu sem er að hlusta og horfa á og reyna að fylgjast með því sem hér fer fram og reyna að komast til botns í þessu máli að álykta um slíkar umræður? Þetta er satt að segja alveg með eindæmum og ef ætti að rekja sögu þessa máls, það hefur reyndar verið gert hér í stórum dráttum, þá efast ég um að nokkurt mál í þingsögunni hafi verið með sama hætti og þetta. Ég stórefa það. Það var einu sinni samin mjög vinsæl revía og leikrit um innflutning á ávöxtum þar sem kom til tals að fresta jólunum til að það væri hægt að flytja inn ávexti. Það væri verðugt verkefni og þeir hefðu ábyggilega verið fullfærir um það þeir bræður sem sömdu það ágæta leikrit Deleríum Búbónis að semja kalkúnalapparevíu og fá hv. 4. þm. Vesturl. og þá harmónikkuleikarana báða í landbn. til að mynda þar hljómsveit. En þetta er nú útúrdúr sem helgast af því að hér er komið nokkuð fram á nótt en þetta er alvörumál sem hér er um að ræða og er ekki til að hafa í flimtingum. Satt að segja er það alveg með ólíkindum að það skuli vera ætlunin hjá hæstv. ríkisstjórn að keyra þetta mál í gegn með þeim hætti sem hér á að fara að gera. Og að hæstv. forsn. skuli taka það í mál að að henni verði lokið án þess að hér verði krufnar til mergjar þær ræður sem hafa verið haldnar í kvöld því þær eru satt að segja alveg með ólíkindum.
    Þessi afgreiðsla er eins og hnefahögg framan í bændur og bændafólk þessa lands og reyndar almenning í þessu landi sem ég fullyrði að er þó enn að reyna að bera virðingu fyrir þeim störfum sem eru unnin í þessari stofnun. En hvað það verður lengi með svona vinnubrögðum, um það vil ég ekki spá. En það getur ábyggilega brugðið til beggja vona.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri en ég vil að lokum beina enn þeim orðum til forseta að gera nú fundarhlé og ráðgast við forsn. um það að fresta þessari umræðu þannig að henni geti lokið á skikkanlegum tíma þegar fundi er fram haldið t.d. á morgun.