Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 02:02:44 (5163)


[02:02]
     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Mér líkar það afar illa að ekki skuli fást frestun á þessu máli. Ég tel að það sé full ástæða til þess og hafi verið rökstuddar mjög vel ástæður fyrir því að það eigi að fresta þessu máli. Ég tel reyndar að það eigi að fresta því það lengi að þingflokkarnir geti komið saman út af þessu máli og rætt þá stöðu sem er komin upp. Það getur ekki verið að alþingismenn telji það eðlilegt að mál gangi fram með þeim hætti sem hér er nú. Að hér hafi komið fram rökstutt nál. á málum þar sem menn hafa hver sína skoðun og það hafi síðan verið innsiglað jafnrækilega eins og gert hefur verið hér í kvöld ágreiningur um grundvallaratriði sem varðar þetta mál sem hér hefur verið til umræðu. Að þingið geti síðan haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist við meðferð þessa máls án þess að stefna að því að breyta því með neinum hætti er nokkuð sem ég get ómögulega sætt mig við. Mér finnst það mjög óeðlilegt að forsetaembættið eða þeir sem gegna hér forsetastörfum vilji ekki taka til endurskoðunar ákvarðanir sínar um að vilja ekki fresta málinu, það tel ég vera óbilgirni í forsetum þingsins. Ég mælist nú til þess að menn skoði hug sinn vandlega og fari hreinlega yfir þetta mál sameiginlega, þeir forsetar sem hér eru á staðnum, og gefi sér til þess smá stund vegna þess að þetta er þannig mál og ber þannig að að það er ekki að hér sé farið fram með einhverju offorsi af þeim sem hér eru staddir. Menn eru vinsamlega að biðja um að menn átti sig á þessu máli eins og það liggur fyrir eftir þær umræður sem hafa farið fram í dag. Ég held að það sé fátt eðlilegra en að menn bregðist við þegar mál kemur upp með þeim hætti sem hér er.