Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 02:27:35 (5170)


[02:27]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að ég hef sjálfræði um mína afstöðu og það hafa allir kjörnir þingmenn sem betur fer. Sumir beita því en aðrir ekki og það er þeirra mál. Ég spurði einfaldlega hvernig gjaldtakan fer fram. Í svari hv. þm. kom það fram að ráðherra á að ákveða það í reglugerð. Þar með er það í mínum huga staðfest að nefndin hefur ekki hugmynd um hvernig þessi gjaldtaka á að fara fram. Það hefur ekkert verið farið yfir það svið og það þykir mér alvarlegt mál. Ég spurði hvar inn í tollaferlið kemur þetta? Hvað reiknast inn í þetta? Það hlýtur að skipta verulegu máli um verðlagið á vörunni hvar þetta kemur. Hvort þetta kemur inn í tollverðgengið, þann stofn, eða hvort það kemur seinna og á hvaða stigi það kemur. Kemur vaskurinn inn í það og þar fram eftir götum. Þetta skiptir verulegu máli. Það var það sem ég var að spyrja um. Mér þykir leitt að heyra að framkvæmdin er með öllu óljós. Mér þykir framsalið til embættismannakerfisins vera orðið alveg nógu mikið. Þingið á að taka á þessum málum og setja alveg skýrar reglur um það, alveg skýrar reglur. Þannig að mér þótti eiginlega leitt að heyra þetta svar. En það var svar og ég þakka fyrir það.