[13:35]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég ætla að beina máli mínu til hæstv. forsrh. Nú er ljóst orðið að bresk stjórnvöld hafa ekkert mark tekið á mótmælum, m.a. okkar Íslendinga, vegna THORP-endurvinnslustöðvarinnar fyrir kjarnorkuúrgang í Sellafield. Eins og kunnugt er, þá lýsti írska ríkisstjórnin því yfir að hún ætlaði að krefjast aukafundar í Parísarnefndinni sem fjallaði um mengun sjávar. Íslendingar lýstu því yfir að þeir styddu þessa kröfu og tóku bæði hæstv. umhvrh. og hæstv. forsrh. undir kröfuna eða lýstu reyndar áhyggjum sínum vegna THORP-endurvinnslustöðvarinnar á þingi Norðurlandaráðs nú fyrir skömmu og vöktu ummæli þeirra athygli þeirra sem hafa barist gegn þessari endurvinnslustöð. Þess vegna ætlaði ég að spyrja hæstv. forsrh. hvort búið sé að fara fram á það að þessi aukafundur verði haldinn í Parísarnefndinni, þ.e. hvort búið sé að fara fram á það formlega af Íslands hálfu.