[13:36]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég veit að vilji hefur staðið til þess en ég þori ekki að fullyrða hvort formleg beiðni hefur verið borin fram. Ég vissi ekki annað en umhvrh. yrði hér, en ég þori ekki að fullyrða það en vilji hefur staðið til þess.
    Það er rétt sem hv. þm. nefndi að við ræddum þetta á fundi Norðurlandaráðs. Það var líka athyglisvert, þar sem það kom í minn hlut að ræða eða flytja upphafsræðu af hálfu allra forsætisráðherranna, að þar stóð ekki vilji til þess í þeim hópi að inni í þeirri ræðu yrði vitnað beint í þetta mál þó að vilji Íslands hefði staðið til þess, en ég taldi mér hins vegar heimilt þegar ég var að svara undir lok umræðnanna að taka sterkar til orða eins og vilji stóð til að gera í þessari upphafsræðu. Ég veit ekki annað en til að mynda Svíar hafi sjálfir áhuga á því að senda til vinnslu kjarnorkuúrgang til stöðva af þessu tagi og þess vegna er kannski skiljanleg þeirra afstaða og reyndar voru aðrir kollegar mínir sama sinnis, þ.e. að þetta ætti ekki að vera með þessum hætti inni í ræðunni sem bein athugasemd eða áskorun á til að mynda Bretland.
    Því miður get ég ekki svarað þessu betur en ég skal afla upplýsinga um það.