[13:37]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að þetta sé gert nú þegar, þ.e. að farið verði fram á þennan aukafund vegna þess að endurvinnslustöðin tekur væntanlega til starfa núna 18. mars. Það getur vel verið að okkur takist ekki að koma í veg fyrir það, en ég tel hins vegar mjög mikilvægt að við sýnum staðfestu í þessu máli og fylgjum því fast eftir. Ég tók eftir því vegna fyrirspurnar minnar til umhverfisráðherra Norðurlanda, þ.e. Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur, að þeir töldu þó að þeir segðu það ekki beint að ef Ísland og Írland krefðust þessa fundar, þá mundi vera ákaflega erfitt fyrir þá að styðja ekki Ísland. Sérstaklega held ég að þetta gildi um Noreg og Danmörku og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að Ísland og Írland krefjist þessa fundar því það vantar þá bara einn til þess að hægt sé að halda þennan fund. Þess vegna er það grundvallaratriði að við gerum þetta hér og nú.