Arðgreiðslur SR-mjöls hf.

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 13:43:35 (5178)


[13:43]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég skil út af fyrir sig vandræði hæstv. fjmrh. og þau eru meiri en dálítil. En ég held að þau starfi meira af sessunautnum heldur en stefnunni.
    Það er alveg rétt að fyrirtækið hagnaðist mikið á síðasta ári, upp á 220--240 millj. En sá hagnaður var skilinn eftir inni í fyrirtækinu og afhentur hinum nýju eigendum ( ÓÞÞ: Að gjöf.) að gjöf. Var það ekki nóg? Er líka eðlilegt að hinir nýju eigendur sem áttu fyrirtækið í einn dag á sl. ári, fái allan arðinn af hagnaðinum á því ári? Ríkið var eigandi fyrirtækisins þangað til á gamlársdag og ég var að spyrja um það hvort hæstv. fjmrh. teldi eðlilega að þeim málum staðið.
    Jafnframt var eiginfjárreikningur fyrirtækisins hækkaður með meðgjöf ríkisins og endurmati eigna úr 21 millj. við áramót 1992 í 1.311 millj. við áramót 1993. Það er að stærstum hluta til, rúmlega helmingi til bein meðgjöf frá ríkinu til hinna nýju eigenda. (Forseti hringir.) Og maður skyldi ætla að það hefði verið nóg, hæstv. fjmrh. þótt þessar skattfrjálsu arðgreiðslur vegna afkomu á því ári sem fyrirtækið var í eigu ríkisins bættust nú ekki við.