Arðgreiðslur SR-mjöls hf.

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 13:45:01 (5179)


[13:45]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Það er nú alveg öruggt þegar maður hlustar á hv. þm. að hann hefur aldrei komið nálægt bisniss. (Gripið fram í.) Ef ég fæ frið fyrir svefndrukknum þingmanninum til að tala, þá skal ég svara þessari fyrirspurn. Það er ljóst, það er alveg kristaltært að þegar fyrirtækið var selt, þá vissu menn um hagnaðinn sem gat orðið af fyrirtækinu og söluverðið mótaðist af því og þannig gengur og gerist í viðskiptum manna á meðal með fyrirtæki að menn vita hvort fyrirtæki standa vel, hvort þau hafa grætt eða tapað og það er tekið tillit til þess í söluverðinu.
    Varðandi hitt atriðið skal það tekið fram að matið var lækkað. Það er umdeilanlegt hvert matið átti að vera og hvernig átti að setja upp efnahagsreikninginn. Það er viðurkennt og það liggur fyrir (Gripið fram í.) en menn skulu átta sig á því að það er umdeilanlegt hvernig á að setja upp efnahagsreikninginn. (Forseti hringir.) En öllum er ljóst og vonandi flestum þingmönnum, jafnvel þeim sem hafa ekki stundað viðskipti, að það liggur fyrir í þessu máli að tekið var tillit til hagnaðarins þegar fyrirtækið var selt.